Íslendingar plataðir með tvísköttunarsamningum

Í skýrslunni segir meðal annars að tvísköttunarsamningar við Holland og …
Í skýrslunni segir meðal annars að tvísköttunarsamningar við Holland og Lúxemborg hafi ekki náð markmiðum sínum, heldur haft þau áhrif að Íslendingar fluttu eignarhald fyrirtækja sinna erlendis til að koma í veg fyrir skattgreiðslur. mbl.is/Golli

Það liggur við að segja að Íslendingar hafi verið plataðir á vissan hátt við gerð tvísköttunarsamninga við Holland og Lúxemborg á árunum 1999 til 2002. Þetta er haft eftir Sigurði Ingólfssyni, formanni starfshóps sem falið var að skoða umfang aflandseigna Íslendinga, í Kastljósþætti sem verður sýndur í kvöld. Sýnt er brot úr þættinum á vef Rúv.

12. janúar fjallaði Morgunblaðið um efni skýrslunnar, sem hefur að nokkru leyti fallið í skugga deilna um drátt sem varð á birtingu hennar. Þar kom meðal annars fram að nauðsynlegt sé að endurskoða þessa tvísköttunarsamninga þar sem þeir hafi aldrei uppfyllt upprunaleg markmið samninganna. Þannig hafi þeim upphaflega verið ætlað að laða hingað til lands erlenda fjárfestingu, en niðurstaðan aftur á móti orðið sú að íslenskir aðilar fluttu eignarhald á íslenskum fyrirtækjum út fyrir landsteinana í skattaskjól og komu þannig í veg fyrir skattgreiðslur.

„Tvísköttunarsamningarnir sem laða áttu erlenda fjárfestingu til landsins leiddu þannig þvert á móti til þess að innlendir aðilar fluttu eignarhald á íslenskum fyrirtækjum út fyrir landsteinana og þannig í skattaskjól þessara samninga. Þetta má kalla misnotkun á þessu samningsformi. Í ljósi þessa má vænta að tekjutap hins opinbera orsakist í framtíðinni í ríkari mæli af veikum tvísköttunarsamningum við lönd innan Evrópu en af hinum hefð- bundnu Tortóla og Panamafélögum sem umræðan hefur mest snúist um,“ segir í skýrslunni.

Í niðurstöðum fyrrnefndrar skýrslu kom fram að í árslok 2015 væri uppsafnað umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum á bilinu 350 til 810 milljarðar króna frá árinu 1990. Var mögulegt tekjutap hins opinbera vegna vantalinna eigna talið nema allt að 6,5 milljörðum króna árlega.

Í myndbrotinu úr Kastljósi kemur fram í máli Sigurðar að samningarnir hafi nánast eingöngu verið nýttir til að forðast skattgreiðslur með málamyndaeignarhaldi. „Þetta kallast misnotkun á þessu samningsformi,“ segir hann.

Sagt er frá því að sérstaklega verði fjallað um „sérkennilega umgengni Landsbankans við samningagerð aflandsfélaga og langvarandi eftirlitsleysi með peningaþvætti hér á landi.“

Landsbankinn í Lúxemborg.
Landsbankinn í Lúxemborg. mbl.is/Ólafur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert