Skjálftahrina í Bárðarbungu

Horft til norðurs eftir Bárðarbungu.
Horft til norðurs eftir Bárðarbungu. mbl.is/Árni Sæberg

Skjálftahrina er nú í gangi í Bárðarbungu og er ekki ljóst hvort henni sé lokið. Stærsti skjálftinn hefur mælst 4,4 stig, samkvæmt bráðabirgðamælingum Veðurstofu Íslands. Þónokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, þar á meðal einn af stærðinni 3,5.

Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir í samtali við mbl.is að enn eigi eftir að yfirfara að fullu gögn um skjálftana.

„Fyrsti skjálftinn varð klukkan 13.47 og svo hafa verið nokkrir eftirskjálftar, einn þeirra mældist 2,6 og annar 3,5 stig,“ segir Bjarki, en bætir við að engin merki sjáist um gosóróa.

Uppfært 15.48:

Eftirskjálftinn, sem fyrst var mældur 3,5 stig, hefur nú verið færður upp í 4 stig eftir frekari greiningu. Þá reyndist stærsti skjálftinn, sem fyrst mældist 4,4 stig, vera aðeins minni, eða 4,3 stig. Fleiri eftirskjálftar hafa þá fylgt í kjölfarið.

Uppfært 16.06:

Skjálftavirknin heldur áfram. Skjálfti af stærðinni 3,4 hefur nú mælst til viðbótar hinum.

Alls hafa því þrír skjálftar verið yfir þremur stigum. Fyrst 4,3, þá 4,0 og svo 3,4. Áfram verður fylgst með hrinunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert