Sneri við ákvörðun vegna ummæla á Facebook

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri LRH.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri LRH. Júlíus Sigurjónsson

Bogi Nilsson, settur ríkissaksóknari í máli Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðallögfræðings lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur snúið við ákvörðun Lúðvíks Bergvinssonar, setts héraðssaksóknara í málinu, um að fella málið niður.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV. Þar segir, að lögreglufulltrúi, sem aðstoðaði Lúðvík, hafi verið vanhæfur vegna ummæla sem hann lét falla um Öldu Hrönn á Facebook.

Tveir menn, annar lögreglumaður í Reykjavík, kærðu Öldu Hrönn til lögreglu og saka hana um að hafa misfarið með lögregluvald þegar hún starfaði á Suðurnesjum. Rannsókn lögreglunnar þar leiddi til þess að lögreglumaðurinn var ákærður fyrir að fletta upp nöfnum kvenna í málaskrárkerfi lögreglunnar án þess að það tengdist starfi hans. Saksóknari dró ákæruna síðar til baka.

Lögreglumaðurinn og hinn maðurinn, sem einnig var til rannsóknar, saka Öldu Hrönn um að hafa rannsakað málið í heimildarleysi, en settur héraðssaksóknari sagði ekkert benda til þess þegar hann komst að sinni niðurstöðu í desember, að því er segir í frétt RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert