Ahmadi-fjölskyldan brosir hringinn

Anisa og Mir Ahmad Ahmadi með Mikael son sinn í …
Anisa og Mir Ahmad Ahmadi með Mikael son sinn í fanginu á Landspítalanum í desember. Það hefur heldur betur lyfts á þeim brúnin síðan þá. Líkur á hæli hafa stóraukist. mbl.is/Árni Sæberg

Brosið fer varla af vörum Ahmadi-fjölskyldunnar í dag. Hún flúði gróft ofbeldi í Afganistan og hefur nú loks fengið þær fréttir, rúmu ári eftir komuna til Íslands, að umsókn hennar um hæli verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Í gær var fjölskyldunni, sem telur fjóra fullorðna og fjögur börn, birtur úrskurður kærunefndar útlendingamála. Nefndin hefur fellt úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að senda fjölskylduna til baka til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá er Útlendingastofnun gert að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar. Í þeirri meðferð allri verður litið á fjölskylduna sem flóttafólk frá Afganistan sem er að sækja hér um hæli. Sú meðferð getur tekið nokkrar vikur, jafnvel mánuði. 

Frétt mbl.is: Drengur fæddist Ahmadi-fjölskyldunni

Það er því þungu fargi létt af fjölskyldunni sem hefur mánuðum saman þurft að búa við óvissu. Þótt óvissan sé ekki alfarið úr sögunni, þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar liggur ekki fyrir, er fjölskyldan bjartsýn á framhaldið. Hún vill dvelja á Íslandi og hvergi annars staðar.

Ástæðan fyrir því að Útlendingastofnun tók ekki mál fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar á sínum tíma var sú að hún kom hingað til lands í gegnum Þýskaland þar sem hún hafði stutta viðdvöl. Var litið svo á að þau hefðu sótt um hæli þar og því ætti að senda þau til baka. Það hugnaðist þeim ekki þar sem Þjóðverjar skilgreina Afganistan ekki lengur sem hættulegt ríki. Hefði Ahmadi-fjölskyldan verið send aftur til Þýskalands voru því verulegar líkur á því að hún yrði send áfram til Afganistan. 

Bjartsýni ríkir

„Ég leyfi mér að vera mjög bjartsýn á framhaldið,“ segir Eva Dóra Kolbrúnardóttir, lögmaður fjölskyldunnar. 

Börnin voru þrjú er fjölskyldan, þau Anisa og Mir Ahmad og foreldrar hans, komu hingað til lands í kringum jólin fyrir rúmu ári. Í desember á síðasta ári bættist svo fjórða barnið við, hann Mikael. Hann fæddist á Landspítalanum; stór, stæðilegur og heilbrigður.

Fjölskyldan upplifði hræðilegt ofbeldi í Afganistan er þau urðu fyrir árás talibana. Enginn efast um þá frásögn hennar. Áverkar á börnunum styðja hana. Lífsreynslan var átakanleg.

Hermaður barði dótt­ur­ina Raks­h­ar aft­an í höfuðið með byssu­skefti svo hún missti meðvit­und. Það blæddi úr vit­um henn­ar; eyra, nefi og aug­um, og lengi var henni vart hugað líf. Hún lifði af en af­leiðing­ar árás­ar­inn­ar eru al­var­leg­ar. Hún er lömuð öðru meg­in í and­lit­inu, missti sjón á öðru aug­anu og heyrn á öðru eyr­anu. Hún er nú sex ára.

Eldri bróðir­inn, Mostafa, hand­leggs­brotnaði illa í árás­inni og sá yngri varð fyr­ir svo miklu áfalli að hann hætti að tala. Mir Ahmad var einnig beitt­ur of­beldi. Hann var bar­inn og missti m.a. tenn­ur við bar­smíðarn­ar.

„Það er enginn vafi um trúverðugleika,“ segir Eva Dóra. Hún segir fjölskylduna hafa fengið sálfræðimeðferð og læknishjálp hér á landi. 

Kærunefndin rökstyður ákvörðun sína um að snúa við úrskurði Útlendingastofnunar m.a. með því að fjölskyldan sé í sérstaklegra viðkvæmri stöðu. Í því sambandi er aðallega horft til hagsmuna barnanna. Meðal gagna sem lögmaður Ahmadi-fjölskyldunnar hefur lagt fram eru ítarleg vottorð lækna um áverka á börnunum. 

Grátið og faðmast

Eva Dóra fór með fjölskyldunni í gær er ákvörðun kærunefndar var birt henni. „Við vorum öll glöð, við grétum af gleði og allir föðmuðust,“ segir Eva Dóra. Í gærkvöldi bauð fjölskyldan henni svo í kvöldmat heim til sín í Breiðholti. „Það var yndislegt.“

Eva Dóra segir fjölskylduna vera að aðlagast mjög vel. Börnin geti flest orðið talað töluvert í íslensku og njóti sín í leikskóla, skóla og úti við leik í hverfinu, rétt eins og önnur börn.

„Þetta hefur verið erfitt ferli fyrir þau en núna brosa þau bara stanslaust út að eyrum,“ segir Eva Dóra. „Þeim líður afskaplega vel hérna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert