Mein sem verður að uppræta

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Golli

„Horfi maður til þess hvað hefur verið gert annars staðar þá er það meðal annars að auka notkun rafeyris með ýmsu móti. Hvort sem það er í gegnum banka, kort eða annað. Þar á meðal á hinum Norðurlöndunum. Ég ætla að láta kanna hvað við getum lært af þeim og hvort við getum ekki tekið upp svipaða hætti hér,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is spurður til hvaða aðgerða stjórnvöld geti gripið vegna svartrar atvinnustarfsemi.

Ráðherrann greindi í gær frá þeim fyrirætlunum sínum að undirbúa löggjöf í þeim tilgangi þar sem bannað yrði að greiða laun út með reiðufé. Enn fremur að allir þyrftu að borga hluti yfir ákveðnu verði í gegnum banka eða kreditkort þannig að viðskiptin yrðu rekjanleg. Spurður nánar um þessi áform segir Benedikt að ekki yrði um mikla breytingu að ræða fyrir nær alla launagreiðendur þar sem launagreiðslur færu þegar að langmestu leyti fram með rafrænum hætti.

„Ég hugsa að þetta yrði ekki mikil breyting fyrir svona 99% fyrirtækja. Flestir greiða inn á bankareikninga og það eru ekki margir af heildinni sem greiða laun með reiðufé. Þannig að það yrði ekki um mikla byltingu að ræða fyrir langflest fyrirtæki. En í einhverjum brönsum viðgengst þetta enn þá,“ segir Benedikt. Fyrir því geti vitanlega verið eðlilegar ástæður en það geti líka tengst bæði skattaundanskotum, peningaþvætti og jafnvel greiðslum fram hjá kjarasamningum.

„Það er í sjálfu sér ekki hugmynd mín að það sé stöðugt verið að tékka á þessu öllu en ef grunur sé um eitthvað misjafnt þá sé auðvelt að rekja ferlið. Þetta er eins og með öryggismyndavélar. Það er ekki stöðugt verið að fylgjast með Laugaveginum en ef eitthvað kemur upp á þá er gott að hafa þær,“ segir hann áfram.

„Engin gerbreyting frá því sem nú er

Hvað varðar það að allir þyrftu að borga hluti yfir ákveðnu verði í gegnum banka eða kreditkort segir Benedikt að það snúist líka um að berjast gegn mögulegu peningaþvætti og skattaundanskotum. Þar væri átt við umtalsverðar fjárhæðir þó ekki liggi fyrir hvað yrði miðað við í því sambandi.

„Þetta yrði engin gerbreyting frá því sem nú er. Langflest af því sem við gerum er skráð,“ segir Benedikt og vísar þar til að mynda til bifreiðakaupa og fasteignakaupa en einhverjir hafi viðrað áhyggjur af friðhelgi einkalífsins í þessu sambandi. Þá hafi aðrir nefnt kostnað við þetta.

„Það þarf að kanna þetta allt saman. Þetta eru bara atriði sem þarf að hafa í huga þegar gerðar eru slíkar breytingar,“ segir hann. Rifjar hann upp að einhvern tímann hafi verið rætt um að Ísland yrði orðið seðlalaust þjóðfélag innan ekki svo langs tíma.

Spurður um aflandsfélög og aðgerðir í þeim efnum segir Benedikt að áfram þurfi að skoða þau mál í kjölfar skýrslu sem unnin var af starfshópi um eignir Íslendinga á aflandseyjum. Mikilvægt sé meðal annars að kortleggja þau viðskipti þar sem um hefur verið að ræða svokallaða faktúrufölsun þar sem gefnir hafi verið út rangir reikningar í milliríkjaviðskiptum til þess að skjóta undan fé.

„Líkt og formaður starfshópsins hefur komið inn á þá hefði hugsanlega þurft að gefa þessari vinnu betri tíma. Þau voru að vinna þetta á tíma þegar margir voru í fríi eins og kemur fram í skýrslunni. Þannig að ég tel að það væri gott að fá ítarlegri vinnu í þeim efnum á næstu mánuðum vegna þess að þessi skattaundanskot eru mein sem við verðum að uppræta. Það eiga allir að fylgja sömu lögum og reglum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert