Bakvörðum fjölgar eftir leitina að Birnu

Leitin að Birnu Brjánsdóttur er umfangsmesta leitaraðgerð Landsbjargar til þessa. …
Leitin að Birnu Brjánsdóttur er umfangsmesta leitaraðgerð Landsbjargar til þessa. Björgunarsveitirnar hafa fundið fyrir miklum meðbyr einstaklinga og fyrirtækja í kjölfarið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bakvörðum Landsbjargar hefur fjölgað um meira en 10% frá því að leitin að Birnu Brjánsdóttur stóð sem hæst. Birna fannst látin við Selvogsvita 22. janúar og hafði þá verið saknað í átta daga. Meira en 700 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni að Birnu þá helgi og segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, björgunarsveitirnar hafa fundið fyrir gríðarlegum stuðningi samfélagsins alls.

Hundruð styrkja hafa borist björgunarsveitunum frá því Birnu var leitað. Stærst er framlag útgerðar grænlenska togarans Polar Nanoq, en mennirnir tveir sem setið hafa í gæsluvarðhaldi vegna dauða Birnu voru báðir í áhöfn skipsins. Annar þeirra hefur nú verið látinn laus. „Síðan höfum við líka verið að fá styrki sem eru allt frá 500 krónum og upp úr,“ segir Jón Svanberg og kveðst telja að Landsbjörg hafi borist um 500 styrkir á undanförnum hálfum mánuði.

Þá hefur verulega fjölgað í bakvarðasveit Landsbjargar á þessum tíma, en rúmlega 15.000 manns styrkja nú björgunarsveitirnar með mánaðarlegum framlögum. „Það hefur fjölgað um 1.700 manns í bakvarðasveitinni, sem við köllum stærstu björgunarsveit landsins.“ Bakvarðarsveitin var stofnuð fyrir fjórum árum og kveðst Jón Svanberg ekki muna eftir víðlíka fjölgun bakvarða á jafnstuttum tíma.

Varðaði þjóðina alla

„Þetta var ótrúleg viðbót sem þarna kom,“ segir hann. „Bæði vísuðu aðstandendur stúlkunnar á félagið og hafa gert og við erum afskaplega þakklát fyrir það. En svo er þetta líka þannig mál að það varðaði þjóðina alla.“

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdarstjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir bakvörðum Landsbjargar hafa …
Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdarstjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir bakvörðum Landsbjargar hafa fjölgað umtalsvert undanfarna daga. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hægt að skrá sig sem bakvörð á vef Landsbjargar og ákveður hver sjálfur sitt mánaðarlega framlag. „Það gildir í þessu eins og svo mörgu öðru, að margt smátt gerir eitt stórt og 500 kallinn getur líka skipt máli,“ segir Jón Svanberg.

Björgunarsveitir Landsbjargar finna almennt fyrir miklum meðbyr árið um kring að sögn Jóns Svanbergs, sem segir meðvirknina forsendu þess að starfið geti þrifist. Hún komi sterkt fram í þolinmæði og stuðningi vinnuveitenda sem hleypa fólki frá vinnu, sem og hjá fjölskyldum þess frábæra fólks sem starfar í björgunarsveitunum og slysavarnardeildunum.

Meðbyrinn eykst í erfiðum leitaraðgerðum

Meðbyrinn eykst þó verulega þegar erfiðar og umfangsmiklar leitaraðgerðir standa yfir og nefnir Jón Svanberg sem dæmi leit björgunarsveitanna að rjúpnaskyttum í haust, sauðfjárbjörgun fyrir norðan fyrir nokkrum árum og leitina að stúlkunum sem fórust í Bleiksárgljúfri. „Þessi stuðningur hefur þó ekki sýnt sig með jafnafgerandi hætti og nú í langan tíma,“ segir hann.

Björgunarsveitirnar fóru heldur ekki varhluta af stuðningi samfélagsins alls meðan á leitaraðgerðum stóð. „Þessa helgi voru fyrirtæki að koma með mat og aðföng og það var orðið þannig á tímabili að við urðum hreinlega að afþakka,“ segir Jón Svanberg.

„Það er einstök samkennd sem þetta félag á í landinu og hún sýndi sig mjög sterkt í þessu hörmungamáli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert