Ekkert að íslenskri veðráttu

Sýrlensk fjölskylda, sem kom hingað til lands fyrir ári og býr á Akureyri, hefur ekkert út á íslenska veðráttu að setja. Þau eru hamingjusöm á Íslandi því þar eru þau örugg. AFP fréttastofan heimsótti flóttafólk sem býr á Íslandi í vikunni. 

Íslensk veðrátta tók fremur óblíðlega á móti fréttateymi AFP við komuna til landsins ef marka má fréttina en fjallað er um 118 Sýrlendinga sem hingað hafa komið sem kvótaflóttamenn frá árinu 2015 í frétt AFP.  

Flestir þeirra eru búsettir í Reykjavík og nágrenni en sumir eru búsettir á Akureyri. Þeirra á meðal er Joumaa Naser, eiginkona hans og fimm börn þeirra hjóna. Akureyri er þeirra heimabær.

Joumaa segir að það muni eflaust taka hann langan tíma að læra íslenskuna almennilega en börn þeirra hjóna eiga hins vegar mun auðveldara með að læra tungumálið. Sonur þeirra, Amjad, spilar fótbolta með vinum sínum á Akureyri og það hefur hjálpað honum mikið við íslenskunámið. 

Amjad er afar ánægður á Íslandi enda sé landið yndislegt og eins Íslendingar. Snjórinn sé skemmtilegur enda alls ekki víst að þú sjáir nokkurn tíma snjó í Sýrlandi segir hann og hlær þegar hann býr til engil í snjónum. 

Færri rasistar hér en víðast annars staðar

Í úthverfi Reykjavíkur búa þau Mustafa og Basma og þau fagna því nýfengna öryggi og frelsi sem þau upplifa í Íslandi ólíkt heimaborginni, sýrlensku hafnarborginni Latakia. „Íslendingar tóku mjög vel á móti okkur,“ segir Mustafa Akra. 

Hann viðurkennir að hafa hitt rasista á Íslandi en þeir séu mun færri hér á landi en annars staðar. 

AFP fréttastofan fjallar um Íslensku þjóðfylkinguna sem stofnuð var í fyrra og lítinn stuðning við þjóðernisflokkinn sem var stofnaður á sama tíma og fyrstu sýrlensku flóttamennirnir komu hingað til lands. 

Linda Blöndal, nágranni sýrlenska parsins, segir í viðtali við AFP að Íslendingar séu lítið fyrir að auglýsa andstöðu sína við flóttafólk enda sé það ekki vinsæl skoðun hér. 

Basma og Mustafa vissu lítið sem ekkert um Ísland við komuna hingað og að hennar sögn höfðu þau aldrei heyrt um landið áður. Mustafa átti erfitt með að finna sér vinnu á Íslandi þrátt fyrir mikla leit enda talar hann hvorki íslensku né ensku. En það tókst að lokum. 

Í Sýrlandi var hann leigubílstjóri, bifvélavirki, kokkur, húsamálari og rafvirki. Hann starfar núna á veitingastaðnum Ali  Baba í miðborginni. Basma á von á þeirra fyrsta barni, dreng, á næstu vikum. „Ég er stolt af því að hann fæðist í þessu fallega landi, Íslandi, sem er eins öruggt og mögulegt er,“ segir hún. 

Fjallað er um hversu margir hafi sótt um hæli hér á Íslandi í greininni og að flestir þeirra komi frá ríkjum á Balkanskaganum. Jafnframt að þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi tekið á móti flóttafólkinu við komuna hingað til lands í fyrra á Keflavíkurflugvelli og að á mánudag hafi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, boðið nýjan hóp flóttafólks velkominn til landsins á Bessastöðum.

Nánar um frétt AFP

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert