„Ekki neitt annað en einkarekið sjúkrahús“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn

Starfsemi Klíníkinnar er ekki hægt að kalla neitt annað en einkarekið sjúkrahús. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á alþingi í dag.

Sagði hún að undanfarið hefði verið til umræðu umsókn einkaaðila, um að fá samning við Sjúkratryggingar Íslands til að opna nýja starfsemi, sem feli í sér sérhæfðar skurðaðgerðir og legudeild til allt að fimm daga.

Frétt mbl.is: Deilt um einkarekin sjúkrahús

„Þetta er ekki hægt að kalla neitt annað en einkarekið sjúkrahús, enda líta bæði landlæknir og einkaaðilinn, Klíníkin sjálf, á starfsemina sem sérhæfða sjúkrahúsþjónustu,“ sagði Katrín.

„Ef starfsemin verður skilgreind með þeim hætti, kallar það á að ráðherra þurfi að taka ákvörðun um hvort veita eigi starfseminni starfsleyfi.“

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra.

Ráðherra taki afdráttarlausa afstöðu

Risastóra ákvörðun sagði hún hvíla hjá ráðherra, sem gæti haft óafturkræf áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi, og væri um leið grundvallarstefnubreyting í heilbrigðisþjónustu hér á landi.

„Það er ólíku saman að jafna, stofurekstri sjálfstætt starfandi sérfræðilækna, einyrkjastarfsemi, og því sem hér er á döfinni.“

Ef ákveðið væri að semja um þessa starfsemi, væri þá verið að færa fé frá hinu opinbera og yfir til einkaaðila, því ekki liggi fyrir að bæta eigi neinu fé inn í heilbrigðiskerfið.

Sagði hún það óskynsamlegt að dreifa kröftum og fjármunum með þessum hætti, á sama tíma og kannanir sýndu að mikill meirihluti landsmanna vildi áfram að heilbrigðisþjónusta væri á vegum hins opinbera.

Að lokum sagðist hún vilja heyra heilbrigðisráðherra, Óttarr Proppé, taka afdráttarlausa afstöðu gegn þessum áformum, um einkarekið sjúkrahús.

Heildstæð stefna á undan breytingum

Óttarr sagði mikilvægt að minna á að stofan hefði starfað um nokkurt skeið, og væri á borð við aðrar starfsstöðvar sérfræðinga. Ekki hefði þá verið tekin ákvörðun um hvort veita ætti leyfi fyrir starfseminni.

Óttarr tók einnig undir orð Katrínar, um að mótuð skyldi heildstæð stefna í heilbrigðismálum hér á landi.

Þá sagði hann ekki standa til að gera grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu. Fyrst myndi hann vilja móta heildstæða stefnu í þessum efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert