Félag til uppbyggingar ferðamannastaða

Arnór Þ. Sigfússon, framkvæmdastjóri Sannra landvætta, ásamt forsvarsmönnum Bergrisa og …
Arnór Þ. Sigfússon, framkvæmdastjóri Sannra landvætta, ásamt forsvarsmönnum Bergrisa og Verkís. mbl.is/Árni Sæberg

Nýtt fyrirtæki var kynnt í dag undir nafninu Sannir landvættir, en það hyggst bjóða landeigendum ferðamannastaða að stofna með þeim rekstrarfélög utan um uppbyggingu og rekstur samhliða gjaldtöku fyrir þjónustu á viðkomandi ferðamannastöðum. Felur það meðal annars í sér uppbyggingu á bílastæðum, salernum, göngustígum, útsýnispalla, sorpþjónustu og starfsmannaþjónustu hjá stærri stöðum. Þá hefur félagið samið við Íslandsbanka um að vera bakhjarl verkefnisins og mun hann fjármagna þau verkefni sem ráðist verður í. Þetta kom fram á kynningarfundi sem haldinn var í húsnæði Verkís í dag.

Arnór Þ. Sigfússon, framkvæmdastjóri Sannra landvætta, segir að uppbygging ferðamannastaða sé nauðsynleg með fjölgun ferðamanna og þar skipti innviðir eins og bílastæði, salerni og fleira mestu máli. Segir hann engu máli skipta hvort landeigendur séu einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög eða ríkið, það verði hægt að vinna með öllum sem hafi áhuga.

Rukka fyrir þjónustu en ekki náttúruna

Segir hann að fyrirtækið muni skoða öll mál sem berist og ef grundvöllur sé fyrir að fara í uppbyggingu með gjaldtöku sé stofnað sérstakt rekstrarfélag með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Þá muni starfsmenn Sannra landvætta koma að aðal- og deiliskipulagsvinnu, sé hennar þörf og allri hönnunarvinnu. Arnór segir að menn muni reyna að átta sig á hversu mikil þörf sé fyrir uppbygginguna og haga henni í samræmi við spár um fjölda ferðamanna.

Arnór segir að ekki verði rukkað fyrir náttúruna sjálfa heldur …
Arnór segir að ekki verði rukkað fyrir náttúruna sjálfa heldur þjónustu eins og salerni og bílastæði. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segir að rekstrarfélagið muni sjá um fjármögnun verkefnisins í gegnum Íslandsbanka og ef verkefnið sé stórt þá muni það einnig halda utan um starfsmannamál. Í samtali við mbl.is tók Arnór sérstaklega fram að ekki væri horft til þess að rukka fyrir aðgang að náttúrunni, heldur fyrir aðgang að þjónustu á svæðinu, hvort sem hún væri í formi bílastæða eða salernis. „Það verður ekkert glápugjald,“ segir hann og bætir við: „Við munum ekki rukka fyrir eitthvað sem er ekki komið.“

Eigendur leggja til afnotarétt, en geta líka tekið þátt í uppbyggingunni

Rentugreiðslur til landeigenda munu vera mismunandi í hverju tilfelli fyrir sig að hans sögn og skiptir þar til dæmis máli hversu kostnaðarsöm uppbygging er og fjöldi ferðamanna sem kemur á svæðið. Segir Arnór að fyrst um sinn verði horft til þess að greiða niður fjármögnunarkostnaðinn við uppbygginguna, auk þess sem landeigandi muni fá einhver prósent í sinn hlut fyrstu árin. Þegar líði á megi svo gera ráð fyrir að tekjurnar verði notaðar í aukna uppbyggingu eða arðgreiðslu til landeiganda.

Bílastæði við Seljalandsfoss.
Bílastæði við Seljalandsfoss.

Arnór segir þessa hugmynd talsvert frábrugðna því sem bjóðist landeigendum í dag, en þeir hafa meðal annars getað sótt um í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Það hefur aftur á móti kostað mótframlag og að viðkomandi sjái um alla vinnuna og skipulag. Arnór segir að með þessu eigi landeigendur sem vilji til dæmis áfram stunda landbúnað og sleppa aðkomu að ferðaþjónustu gert það, en samt fengið auka tekjur í kassann. Hann tekur þó fram að sé vilji landeigenda til að vera hluthafi í rekstrarfélaginu sé það umsemjanlegt og jafnvel sé einhver uppbygging fyrir hendi sem geti komið inn sem hlutafé.

Fossar, náttúrulaugar, gljúfur og lón

Hann segir að horft verði til staða um allt land og nefnir staði eins og Seljalandsfoss, Skógarfoss, ýmsar náttúrulaugar, Fjaðrárgljúfur og Jökulsárlón um staði þar sem vanti uppbyggingu og þjónustan geti passað á.

Ný löggjöf í vinnslu varðandi gjaldtöku við ferðamannastaði

mbl.is sagði fyrr í dag frá því að samgöngu- og sveitarstjóraráðuneytið væri að undirbúa nýtt frumvarp til breytinga á umferðarlögum. Breyt­ing­arn­ar snúa að því að heim­ila rík­inu og sveit­ar­fé­lög­um að taka bíla­stæðagjöld í dreif­býli, svo sem við ferðamannastaði. Í dag nær heim­ild­in ein­göngu til gjald­töku í þétt­býli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert