Játning liggur ekki fyrir

Mennirnir tveir eru skipverjar á Polar Nanoq.
Mennirnir tveir eru skipverjar á Polar Nanoq. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Játning liggur ekki fyrir í máli Birnu Brjánsdóttur en tveir menn, sem hafa setið í gæsluvarðhaldi í tengslum við lát hennar í tvær vikur, voru báðir yfirheyrðir í gær. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að ákvörðun um hvort óskað verði eftir framlengingu á gæsluvarðhaldinu verði tekin um hádegið en gæsluvarðhaldsúrskurðurinn rennur út klukkan 16 í dag.

Grímur segir að ekki standi til að yfirheyra mennina, sem liggja undir grun um að hafa orðið Birnu að bana, fyrir hádegi en þeir hafa verið yfirheyrðir reglulega undanfarið.

Grímur, sem stýrir rannsókninni, segir atburðarásina í málinu farna að verða skýrari. „Þetta skýrist örlítið við hverja yfirheyrslu og við teljum okkur hafa orðið nokkuð skýra mynd af því hvernig hún lést,“ sagði Grímur í samtali við mbl.is í gær.

Verði ekki farið fram á framlengingu gæsluvarðhalds verða mennirnir látnir lausir, en Grímur segir að ef slík ákvörðun verði tekin komi til álita að úrskurða þá í einhvers konar farbann. Slíkt sé þó ákvörðun ákærusviðsins.

Yfirheyrslurnar í gær fóru m.a. fram á grænlensku og var flogið með grænlenskan dómtúlk til Íslands vegna málsins. Grímur segir slíkt ekki hafa haft bein áhrif á yfirheyrslurnar, sem áður fóru fram á dönsku og ensku, en það sé hins vegar réttur manna að vera yfirheyrðir á sínu tungumáli. „Það gekk ágætlega þegar verið var að túlka úr dönsku og ensku, en hins vegar er best að túlka beint úr móðurmáli viðkomandi,“ sagði hann í samtali við mbl.is í gær.

Ekki hefur enn neitt verið gefið upp varðandi dánarorsök Birnu að öðru leyti en að henni hafi verið ráðinn bani. Segir Grímur til athugunar hjá lögregluembættinu hvort frekari upplýsingar um dánarorsök verði veittar. Réttarfræðilegri skoðun er þó lokið og verið er að vinna að lokaskýrslu sem væntanlega verður tilbúin á næstu dögum.

Ekki hefur enn verið staðfest hvar Birna fór í sjóinn, en Grímur sagði í samtali við mbl.is á mánudag að lögreglan hafi nú ákveðnar hugmyndir um hvar það hafi gerst. Birna fannst látin við Selvogsvita fyrir rúmri viku, átta sólarhringum eftir að hún hvarf. Tilgáta lögreglu er byggð á ráðgjöf frá sérfræðingum í hafstraumum og ölduhreyfingum. Engin endanleg niðurstaða er þó komin í þá rannsókn.

Þá hefur enn ekki tekist að kortleggja ferðir rauða Kia Rio-bílsins milli kl. 7 og 11.30 að morgni laugardagsins 14. janúar, en lögregla er enn að skoða myndefni sem hún hefur aflað sér og vinnur þann lista eftir ákveðinni forgangsröðun.

Útför Birnu fer fram í Hallgrímskirkju á föstudaginn kl. 15 og tilkynntu foreldrar Birnu í færslu á Facebook á mánudag að blóm og kransar væru afþökkuð en bentu fólki þess í stað á að styrkja Landsbjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert