Leggja áfengisfrumvarpið fram aftur

Teitur Björn Einarsson.
Teitur Björn Einarsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn fjögurra flokka hafa lagt fram lagafrumvarp á Alþingi þess efnis að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis verði aflagt og smásala að ákveðnu marki gerð frjáls. Um er að ræða sama frumvarp og lagt var fram á síðustu tveimur þingum en var þá ekki afgreitt. Fyrsti flutningsmaður er Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Fram kemur í greinargerð með lagafrumvarpinu að með því séu lagðar til eins litlar breytingar á lagaumhverfi áfengis- og tóbakssölu og mögulegt er í ljósi markmiðs þess að smásala áfengis verði frjáls að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. „Frumvarpið felur í sér aukið frelsi til smásölu á Íslandi en það er ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu heldur að setja reglur um hana og hafa eftirlit með henni ef nauðsyn þykir. Hlutverk einkaaðila er að selja vörur og þjónustu í samræmi við þær reglur sem stjórnvöld hafa sett,“ segir enn fremur.

Flutningsmenn eru auk Teits Björns samflokksmenn hans Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir, Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson frá Pírötum og Nichole Leigh Mosty frá Bjartri framtíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert