Notaði kortið í eigin þágu

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta notaði kreditkort skáta í eigin þágu og eins greiddi hann sér hærri dagpeninga en reglur segja til um. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðu bráðabirgðaskýrslu endurskoðanda um málefni hreyfingarinnar. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.

Frétt mbl.is: Óánægja um uppsögn framkvæmdastjórans

 Í niðurstöðu bráðabirgðaskýrslu löggilts endurskoðanda Bandalags íslenskra skáta (BÍS) um rannsókn á fjármálum fyrrverandi framkvæmdastjóra BÍS, Hermanns Sigurðssonar, segir að hann hafi meðal annars notað kreditkort skáta í eigin þágu og keypt með því skíðaboga á bíl sinn. Þá segir í skýrslunni að hann hafi greitt sér hærri dagpeninga en reglur ríkisskattstjóra segja til um og greitt sér hærri laun en honum var heimilt samkvæmt ráðningarsamningi. Einnig segir að Hermann hafi greitt sér þrettánda mánuðinn í október 2015. Í ráðningarsamningi var sagt að hann ætti rétt á þeim bónus í lok árs. 

Hvorki Hermann né fyrrverandi skátahöfðingi Íslands, Bragi Björnsson, vildu tjá sig um málið við Fréttablaðið. Hann staðfesti þó að hann hefði sjálfur lagt til að framkvæmdastjóranum yrði sagt upp vegna gruns um óeðlilega fjársýslu.

Frétt mbl.is: Vona að það skapist friður

Bætt við klukkan 6:48 3. febrúar

Tilkynning sem stjórn Bandalags íslenskra skáta sendi frá sér í gær varðandi fréttaflutning af málinu.

„Stjórn Bandalags íslenskra skáta (BÍS) vill koma eftirfarandi á framfæri vegna umræðu í fjölmiðlum um meint fjármálamisferli fyrrverandi framkvæmdastjóra hreyfingarinnar. Í kjölfar uppsagnar fyrrverandi framkvæmdastjóra tók stjórn BÍS ákvörðun um að fá óháðan aðila til að rannsaka fjárreiður BÍS. Þeirri vinnu er ekki lokið, en samkvæmt bráðabirgðarskýrslu löggilts endurskoðanda liggur fyrir að ekkert bendi til þess að um saknæmt athæfi að ræða hvað varðar fjársýslu fyrrverandi framkvæmdastjóra.

Niðurstöður bráðabirgðarskýrslunnar voru kynntar af viðkomandi endurskoðanda á félagsforingjafundi sem haldin var þann 14. janúar síðastliðinn. Á fundinum ítrekaði endurskoðandinn að hann teldi ekki, á grundvelli þeirra gagna sem lægju fyrir, að um neitt saknæmt athæfi væri að ræða af hálfu fyrrverandi framkvæmdastjóra. Á félagsforingjafundinum gafst öllum hlutaðeigandi tækifæri til að tjá sig um málið og náðist ákveðin sátt um deilumálin, meðal annars um fjármál fyrrverandi framkvæmdastjóra.fundarins. Framundan er aukaskátaþing og svo kjör nýs skátahöfðingja.

 Stjórn Bandalags íslenskra skáta“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert