Öðrum sleppt úr gæsluvarðhaldi

mbl.is/Eggert

Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu mun óska eftir því annar skipverjinn á Polar Nanoq sem er grunaður um að hafa orðið valdur að dauða Birnu Brjánsdóttur verði áfram í gæsluvarðhaldi. Hinn hefur áfram stöðu sakbornings en verið er að sleppa honum úr haldi.

Tvímenningarnir hafa setið í gæsluvarðhaldi í tvær vikur vegna rannsóknar á dauða Birnu og rennur gæsluvarðhaldið út klukkan 16 í dag. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, sem stýrir rannsókn málsins, segir að ekki verði farið fram á farbann yfir þeim sem verið er að sleppa úr haldi en hann hefur áfram réttarstöðu sakbornings. „Við teljum að málið sé upplýst með þeim hætti að við þurfum ekki að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum,“ segir Grímur.

„Við teljum málið upplýst með þeim hætti að þetta er niðurstaðan,“ segir Grímur, spurður út í beiðni um að annar skipverjinn verði áfram í gæsluvarðhaldi en hann hefur ekki játað að hafa orðið Birnu að bana.

Birna Brjánsdóttir hvarf aðfararnótt laugardagsins 14. janúar og liðu rúmir átta sólarhringar frá þeim tíma og þar til áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, fann Birnu látna í flæðarmálinu rétt utan Selvogsvita, um 15 kílómetra vestur af Þorlákshöfn. Þá höfðu nærri 800 björgunarsveitarmenn, ásamt lögreglu og starfsmönnum Landhelgisgæslunnar leitað hennar á mjög víðfeðmu svæði sem teygði sig um allt suðvesturhorn landsins. Er þar um að ræða umfangsmestu leit sem Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur ráðist í nokkru sinni. Síðast hafði sést til Birnu á upptökum öryggismyndavéla í miðborg Reykjavíkur rétt fyrir klukkan sex að morgni fyrrnefnds laugardags. Hafði hún verið að skemmta sér í hópi vina í miðborginni fram að því.

Birna Brjánsdóttir var fædd 28. nóvember árið 1996 og var því tvítug að aldri þegar hún lést.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert