Reiðubúinn að koma til baka

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Árni Sæberg

„Við fórum þess á leit við manninn að hann komi til baka ef á þarf að halda og hann ætlar að gera það ef farið verður fram á það.“

Þetta segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is spurður um karlmann sem grunaður er um aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur en var sleppt úr gæsluvarðhaldi í dag. Ekki var óskað eftir framlengingu á varðhaldinu og hefur maðurinn nú yfirgefið Ísland og haldið til síns heima á Grænlandi.

Gæsluvarðhald yfir hinum karlmanninum var hins vegar framlengt. Sá sem sleppt var úr varðhaldi hefur þó áfram stöðu grunaðs manns en hann er talinn búa yfir upplýsingum um hvarf Birnu. 

„Þau úrræði sem við höfum er að biðja um að menn séu yfirheyrðir í öðrum löndum með réttarbeiðnum og síðan getum við náttúrulega farið fram á framsal frá Grænlandi. Það er mögulegt ef á þarf að halda. En hann hefur hins vegar lýst því yfir að hann sé viljugur til þess að koma til baka og svara spurningum,“ segir Grímur.

Spurður hvort það hafi verið forsenda fyrir því að manninum væri sleppt úr gæsluvarðhaldi segir Grímur svo ekki hafa verið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert