Skora á heilbrigðisráðherra

Oddný Harðardóttir er fyrsti flutningsmaður á frumvarpi þingmanna Samfylkingarinnar til …
Oddný Harðardóttir er fyrsti flutningsmaður á frumvarpi þingmanna Samfylkingarinnar til breytinga á lögum um sjúkratryggingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil umræða hefur skapast um einkarekna sjúkraþjónustu síðustu vikur eða frá því að landlæknir staðfesti að fyrirhugaður rekstur Klíníkurinnar Ármúla á fimm daga legudeild uppfyllti faglegar kröfur embættisins.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sagði á Alþingi í dag að ekki væri hægt að kalla starfsemi Klíníkurinnar annað en einkarekið sjúkrahús og að risastór ákvörðun hvíldi hjá ráðherra sem gæti haft óafturkræf áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi.

Frétt mbl.is: „Ekki neitt annað en einka­rekið sjúkra­hús“

Leggja fram frumvarp um samþykkt Alþingis

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur nú sent frá sér ályktun þar sem hann skorar á Óttar Proppé heilbrigðisráðherra að samþykkja ekki einkarekna sjúkrahúsþjónustu.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa jafnframt lagt fram frumvarp sem kveður á um að heilbrigðisráðherra þurfi að fá samþykkt Alþingis til að semja um aukinn einkarekstur eða einkavæðingu.

„Það er mikilvægt að þingmenn sameinist um afgreiðslu málsins. Slíkar stefnumarkandi ákvarðanir eiga heima á Alþingi en ekki bak við luktar dyr.“

Fæli í sér grundvallarbreytingu á heilbrigðiskerfinu

Í ályktuninni segir að umsókn um leyfi til að starfrækja sérhæft sjúkrahús í einkarekstri sé á borði ráðherrans. Þingflokkur Samfylkingarinnar tekur í sama streng og Katrín og segir að samþykkt ráðherra fæli í sér grundvallarbreytingu á íslenska heilbrigðiskerfinu.

Þingflokkur Samfylkingarinnar segir umsóknina snúa að starfsemi sem opinberu spítalarnir séu í fullum færum til að framkvæmda og að kostnaður við samþykki myndi fela í sér „mikið óhagræði, veikari sérfræðiþjónustu og flutning á fjármagni frá fjárþurfa opinberu kerfi í hagnaðardrifinn einkarekstur.“

Í tilkynningunni vekur þingflokkur Samfylkingarinnar einnig athygli á að forstjóri Landspítalans og BSRB hafi opinberlega lagst gegn áformunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert