Telur 95. grein vera tímaskekkju

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er algjör tilviljun að þetta er að koma fram á sama tíma og Trump er að koma fram með ýmsar umdeildar tilskipanir,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, um frumvarp um móðganir við erlenda þjóðhöfðingja.

Eins og mbl.is greindi frá í gær hefur hún lagt fram umrætt lagafrumvarp, um breytingu á almennum hegningarlögum þar sem meðal annars er fjallað um móðganir við erlenda þjóðhöfðingja og skemmdarverk á sendiráðum. Hún vill að 95. grein laganna verði felld úr gildi og segir hana vera tímaskekkju.

Steinunn Þóra segir að fjölmargar klausur sem varða viðurlög við ærumeiðingum sé að finna í hegningarlögunum og þær eigi að duga til. „Mér finnst að það eigi ekkert að gilda eitthvað sérstakt um þjóðhöfðingja umfram aðra. Mér finnst þessi grein vera óþörf,“ segir hún og telur að jafnt eigi yfir alla að ganga.

„Orðum fylgir ábyrgð og tjáningarfrelsinu fylgir ábyrgð. Ég tel að það sé dekkað í öðrum greinum þessara sömu hegningarlaga.“

Varðandi skemmdarverk á sendiráðum vísar hún í aðra lagagrein þar sem tekið er á skemmdarverkum og telur að það eigi að kæra fólk samkvæmt henni.

Hún nefnir einnig að mun þyngri dómar séu við lýði vegna brota á 95. grein laganna heldur en vegna samskonar brota þar sem þjóðhöfðingjar og sendiráð koma ekki við sögu og því eigi að breyta. 

95. grein almennra hegningarlaga:

„Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum.

Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem smánar opinberlega eða hefur annars í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum, eða ærumeiðandi aðdróttanir við aðra starfsmenn erlends ríkis, sem staddir eru hér á landi.

Sömu refsingu skal hver sá sæta sem ógnar eða beitir valdi gagnvart sendierindreka erlends ríkis hér á landi eða ræðst inn á eða veldur skemmdum á sendiráðssvæði eða hótar slíku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert