Flóttafólk á Íslandi boðið velkomið

Þrír bræður frá Sýrlandi sem eru búsettir á Íslandi.
Þrír bræður frá Sýrlandi sem eru búsettir á Íslandi.

 Íslandsdeild Amnesty International hefur birt myndskeið sem ber heitið #Velkomin á samfélagsmiðlum en það er hluti af herferð samtakanna til stuðnings flóttafólki.

Hugmyndin að gerð myndbandsins byggir á uppgötvun sálfræðingsins Arthur Aron þess efnis að ef fólk myndar ótruflað augnsamband í fjórar mínútur samfleytt færist það nær hvort öðru, að því er segir í tilkynningu.

Faðmlag.
Faðmlag.

Íslandsdeild Amnesty International ákvað að fá flóttafólk á Íslandi og innfædda Íslendinga til að hittast í fyrsta sinn og gefa sér stund til að færast nær hvort öðru. Flóttafólkið sem tók þátt kemur frá Afganistan, Íran, Sómalíu, Sýrlandi og Pakistan.

„Á tímum þegar átök, ofsóknir, útskúfun og mismun er útbreidd í heiminum er tilvinnandi að reyna að sjá lífið með augum annarra. Alltof oft falla þjáningar raunverulegra einstaklinga í skugga talna og fyrirsagna, einstaklinga sem, eins og við, eiga fjölskyldur, vini og sögur, drauma og markmið. Landamæri skilja að lönd – ekki fólk. Það er löngu tímabært að ríkisstjórnir allra landa setji fólk en ekki landamæri á oddinn og leggi sérhagsmunapólitík til hliðar.

Ríki Evrópu hafa brugðist við þeim mikla flóttamannavanda sem nú eru í heiminum með lokun landamæra og hertara eftirliti, vafasömum samningum við önnur ríki um að halda flóttafólki frá álfunni, varðhaldsvistun og endursendingum á flóttafólki til landa þar sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu, en skýrt er kveðið á um bann við slíkum endursendingum í alþjóðlegum mannréttindalögum. Þá sér ekki fyrir endann á þeim skelfilegu afleiðingum sem bann Bandaríkjaforseta mun hafa á viðkvæma hópa flóttafólks frá múslimaríkjunum Íran, Írak, Líbíu, Sómalíu, Sýrlandi, Súdan og Jemen eða þeim ruðningsáhrifum sem tilskipanirnar munu hafa á flóttamannakerfið á heimsvísu.

Samstaða íslensku þjóðarinnar með flóttafólki er einstök, eins og skoðanakönnun Maskínu fyrir Íslandsdeild Amnesty International bersýnilega sýnir, þar sem 85% aðspurðra sögðust bjóða flóttafólk velkomið til landsins og 75% töldu að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að aðstoða flóttafólk. Það er á þessum jákvæða grunni sem Íslandsdeild Amnesty International byggir áframhaldandi baráttu sína fyrir réttindum flóttafólks,“ segir í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert