Tvö heimilsofbeldismál til kasta lögreglu

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var í tvígang kölluð út í Reykjavík í nótt vegna heimilisofbeldis. Í hvorugt skiptið var um handtöku að ræða en í öðru tilvikinu fór annar þeirra sem deildu út af heimilinu.

Fyrra tilvikið var tilkynnt skömmu fyrir tvö í nótt en þar var par ósátt í Grafarvogi og kom til átaka á milli fólksins. Að sögn lögreglu var enginn handtekinn en annað þeirra fór af heimilinu. Um minni háttar áverka var að ræða.

Síðara tilvikið átti sér stað í austurhluta Reykjavíkur á þriðja tímanum. Þar var ungt par ósátt en um litla áverka að ræða og enginn handtekinn, samkvæmt dagbók lögreglu.

Tveir ökumenn, sem grunaðir voru um ölvun við akstur, voru stöðvaðir í nótt og tekin úr þeim blóðsýni. Báðir voru látnir lausir að því loknu.

Um miðnætti var síðan ökumaður sem er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna stöðvaður en hann er einnig sviptur ökuréttindum. Hann var einnig látinn laus að lokinni sýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert