25 sjúklinga vantaði sjúkrarúm

Tómas Guðbjartsson, prófessor og læknir.
Tómas Guðbjartsson, prófessor og læknir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tómas Guðbjartsson, prófessor og læknir, fjallaði um bágborið ástand Landspítalans í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Í færslunni líkir Tómas ástandinu á spítalanum við drekkhlaðna lest þar sem aðeins ákveðinn fjöldi sæta er í boði til að tryggja öryggi þeirra sem ætla að ferðast með henni. Á sama tíma skipi eigandinn, ríkið, svo fyrir að taka verði við öllum sem vilja um borð.

„Í gær var lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi á Landspítala en þegar ég mætti á stofugang vantaði 25 sjúklinga á spítalanum sjúkrarúm og rúmanýting mældist 116% (í stað æskilegs 85% hámarks),“ segir Tómas. Lausnin var því sú að koma sjúklingum fyrir inni á kaffi- og biðstofum, göngum og geymslum, og sumir jafnvel sendir á önnur sjúkrahús. Flestir urðu þó að bíða á bráðamóttöku þar sem ástandið var skelfilegt, að sögn Tómasar.

Erfitt að tryggja öryggi sjúklinga 

„Ástæðan? Jú, flensufaraldur og veirusýkingar. Óvænt uppákoma? Nei, algjörlega viðbúið; eins og bréf sem skilar sér í pósti. Þessir „faraldrar“ skjóta jú alltaf upp kollinum á þessum tíma árs – og ekkert sem bendir til þess að þeir séu sérlega skæðir nú. Því miður á ástandið líklega eftir að versna því inflúensan hefur ekki enn náð hámarki. Sem er grafalvarlegt þar sem spítalinn og starfsfólk hans eru að þrotum komin og erfitt að tryggja öryggi sjúklinga við þessar aðstæður,“ segir Tómas.

Með færslunni fylgir mynd af drekkhlaðinni lest sem Tómas líkir spítalanum við. „Öllum er ljóst að lestin er lúin og síbilandi, en á sama tíma skipar eigandinn, ríkið, svo fyrir að taka verði við öllum sem vilja um borð. Sem er snúið því aðsóknin vex og sífellt fleiri eldri borgarar hafa keypt sér miða. Farþegum er tjáð að til standi að panta nýja og rýmri lest, en óvíst er hvenær hún verður tekin í notkun. Þangað til verða farþegar að sætta sig við farrými sem ekki þekkjast í nágrannalöndum okkar. Og starfsfólkið er vinsamlega beðið um að brosa breitt,“ segir Tómas.

Verður að leysa bráðavanda spítalans

Að lokum bendir hann á að það sé löngu orðið ljóst að Landspítalinn sé nokkrum númerum of lítill fyrir þau verkefni sem honum er ætlað að sinna og ekkert svigrúm sé lengur í starfseminni til að takast á við viðbúna árstíðabundna kúfa. „Þetta bitnar á öryggi sjúklinga og er algjörlega óásættanlegt fyrir starfsfólk. Sem betur fer hafa stjórnendur spítalans viðurkennt vandann í fjölmiðlum. En hvar eru eftirlitsstofnanir eins og Brunaeftirlitið, Vinnueftirlitið og sérstaklega landlæknir sem á að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu á Íslandi?“ spyr Tómas.

Hann segir brýnt að flýta byggingu nýs spítala við Hringbraut en þangað til verði að leysa bráðavanda spítalans með öðrum hætti.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert