Við getum ekki kennt kjósendum um

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, flytur ræðu sína.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, flytur ræðu sína. mbl.is/Árni Sæberg

„Við getum ekki dvalið um of við liðna atburði. Það er þó ljóst að flokkur sem hefur minnkað úr 20 þingmönnum í 3 á nokkrum árum verður að hugsa sinn gang. Ástæður fyrir þessum ógöngum eru fjölmargar og samtvinnaðar og við skulum ræða þær af festu og hófsemd, en ekki til þess að leita að einstökum blórabögglum.“

Þetta sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarfundi flokksins sem stendur yfir í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Sagðist hann hins vegar sannfærður um að dagurinn í dag gæti markað upphafið að gagnsókn Samfylkingarinnar eftir ósigurinn í þingkosningunum í október ef flokksmönnum lánaðist að ganga samtaka til verka. Horfa yrði til framtíðar í þeim efnum en ekki dvelja í fortíðinni.

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, og Helgi Hjörvar, fyrrverandi þingflokksformaður …
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, og Helgi Hjörvar, fyrrverandi þingflokksformaður flokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Eitt er þó öruggt, við getum ekki kennt kjósendum um. Og það hjálpar okkur ekki að tala sífellt um að meirihluti Íslendinga séu jafnaðarmenn ef við náum ekki eyrum þeirra. Við þurfum að nota tímann vel og leita lausna,“ sagði Logi enn fremur. Það væri í góðu lagi að takast aðeins á svo framarlega þess væri gætt að vera rausnarleg og umburðarlynd. Jafnaðarmenn ættu raunar í nokkrum vanda víða í Evrópu. 

„Kannski höfum við misst talsamband við almenning. Við höfum beint sjónum okkar að ákveðnum hópum sem vissulega eiga heima undir regnhlíf jafnaðarstefnunnar. En við það hefur öðrum fundist þeir afskiptir,“ sagði hann. Hins vegar hefði komið þægilega á óvart hversu mikil spurn hafi verið eftir Samfylkingunni í stjórnarmyndunarviðræðum þrátt fyrir lítinn þingstyrk. Það hafi einkum verið að þakka vinnusemi og ábyrgð fyrrverandi þingmanna flokksins.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, og Hrannar B. Arnarsson.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, og Hrannar B. Arnarsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Það voru mikil vonbrigði að ekki tækist að mynda fimm flokka stjórn. Að mínu mati var enginn sá ágreiningur sem ekki hefði verið hægt að leysa, a.m.k. ef miðað var við kosningastefnur flokkanna. Þá sýndist mér ljóst að enginn þessara fimm flokka myndi ná betri niðurstöðu í öðrum viðræðum. Og það hefur komið á daginn. Kannski strandaði þetta þegar öllu var á botninn hvolft ekki á málum heldur fordómum og hræðslu við nýjan og fjölbreyttari kúltúr.  Mér finnst það ömurlegt.“

Logi sagði að þurft hefði sterkari jafnaðarflokk á miðju litrófinu til þess að líma fimm flokka samstarf saman. „Enn einu sinni var sundrung félagshyggjuafla vatn á myllu Sjálfstæðisflokksins. Niðurstaðan var því sú að tveir flokkar, sem reru talsvert á okkar mið, köstuðu kosningarloforðum síðan fyrir róða og leiddu til valda forsætisráðherra sem nefndur var í Panama-skjölunum. En þau voru meginástæða kosninganna.“

Frá flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.
Frá flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert