„Fannst ég fljúga“

Anisa með Mikael litla. Hann fæddist á Landspítalanum í desember. …
Anisa með Mikael litla. Hann fæddist á Landspítalanum í desember. Honum heilsast vel og er mikill gleðigjafi í fjölskyldunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einskær gleði. Endalaust þakklæti. Ahmadi-fjölskyldan getur vart lýst létti sínum og ánægju með orðum. Eftir að hafa flúið alla leið til Íslands undan árásum talibana í Afganistan hefur bjartur vonarneisti kviknað. „Loksins komu góðar fréttir. Mér fannst ég fljúga þegar ég fékk svarið,“ segir aldursforsetinn Ali Ahmad.

Fréttirnar góðu eru þær að Útlendingastofnun hefur verið gert að taka hælisumsókn fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar. Kærunefnd útlendingamála sneri á mánudag við úrskurði stofnunarinnar um að senda fjölskylduna aftur til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Og hamingjan ræður ríkjum í íbúð fjölskyldunnar í Seljahverfi í Reykjavík. Hún sést í augum þeirra og heyrist á hlátri þeirra. Kvíðinn hefur vikið, að minnsta kosti tímabundið, fyrir bjartsýni og von. Innan þriggja mánaða er búist við því að niðurstaða Útlendingastofnunar liggi fyrir. Þá mun ráðast hvort Ahmadi-fjölskyldan fái hér hæli og geti byrjað nýtt líf af krafti.

Fyrst voru þau sjö

Þau er orðin átta. Sjö komu til landsins um jólin árið 2015: Hjónin Anisa og Mir Ahmad, börnin þeirra þrjú og foreldrar Mir Ahmads, Zahra og Ali Ahmad. Fyr­ir rúm­lega tveim­ur árum varð fjöl­skyld­an fyr­ir árás talib­ana í þorpinu sínu, Meydan Yardak, í Af­gan­ist­an. Þau eru shía-mús­lim­ar en sá hóp­ur hef­ur lengi sætt of­sókn­um. Þau tilheyra einnig öðrum minnihlutahópi, Haz­aras-þjóðar­brot­inu, sem enn hefur aukið á fordóma og áreiti. Afleiðingar árásarinnar voru bæði andlegar og líkamlegar. 

Í kjölfar hennar lögðu þau á flótta. Þau höfðu viðkomu í Þýskalandi á leið sinni til Íslands. En vikudvöl þar reyndist afdrifarík. Stjórnvöld létu Mir Ahmad gefa fingraför sín og þar með var litið svo á að hann hefði sótt þar um dvalarleyfi. Þegar fjölskyldan sótti svo um hæli á Íslandi fékk hún synjun. Til stóð að senda hana aftur til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. En þar sem þýsk stjórn­völd hafa gert sam­komu­lag við þau af­gönsku um að senda hluta flótta­fólks til baka óttaðist Ahmadi-fjölskyldan það versta.

Afleiðingar árásarinnar

Eva Dóra Kol­brún­ar­dótt­ir, lögmaður fjöl­skyld­unn­ar, bað um end­urupp­töku á máli þeirra á grund­velli nýrra upp­lýs­inga. Á það var fallist fyrir nokkrum dögum og mun Útlendingastofnun nú loks taka hælisumsóknina til efnislegrar meðferðar. 

Nýju upplýsingarnar voru fyrst og fremst fólgnar í frekara mati á sérstaklega viðkvæmri stöðu fjölskyldunnar og þeim skaðlegu áhrifum sem árás talibana hafði á börnin þrjú. Lagt var m.a. fram ítarlegt læknisvottorð um þær hræðilegu afleiðingar sem árásin hafði á sex ára dóttur hjónanna. Ljóst þykir að stúlkan muni glíma við þær alla sína ævi. Tryggja bæri hagsmuni barnanna svo að þau fengju viðeigandi aðstoð hér á landi.

Það varð svo fjölgun í fjölskyldunni í byrjun desember er Mikael litli fæddist á Landspítalanum. Sá dafnar heldur betur vel. Móðir hans er ólíkt glaðbeittari nú en skömmu eftir að hann fæddist. Þrátt fyrir þau gleðitíðindi að hafa eignast heilbrigðan dreng var kvíðinn fyrir framtíð hans og þeirra allra mjög mikill.

Frétt mbl.is: Lítill drengur fæddist Ahmadi-fjölskyldunni 

En þessa dagana er létt yfir Anisu. Hún kyssir brosandi svarthærða drenginn sinn sem skríkir af kæti. Amma og afi brosa líka og fylgjast stolt með Mikael sem lítur forvitinn í kringum sig og kann greinilega vel að meta athyglina. Hann líkist eldri bróður sínum, segja foreldrarnir. 

„Glöð, glöð, glöð!“ segir Zahra, rúmlega sjötug amma barnanna, um fyrstu viðbrögð sín við niðurstöðu kærunefndarinnar. Hún hristist af hlátri þegar hún rifjar þetta augnablik upp.

„Loksins komu góðar fréttir. Mér fannst ég fljúga þegar ég fékk svarið,“ segir afinn Ali Ahmad. Sonur hans brosir einnig breitt. Hann segir að niðurstaðan hafi verið sú sem hann helst óskaði sér. „Mér fannst þetta eins og draumur, næstum óraunverulegt. Þvílík hamingja.“

Mikael í vöggunni sinni heima í Breiðholtinu. Þar býr fjölskyldan …
Mikael í vöggunni sinni heima í Breiðholtinu. Þar býr fjölskyldan öll saman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líður betur með hverjum deginum

Elsta barnið, Mostaf, réð sér varla fyrir kæti þegar fréttirnar bárust. Hann er átta ára. „Hann hló og hló og var mjög glaður,“ segir Mir Ahmad um viðbrögð sonar síns. Mostafa handleggsbrotnaði illa í árásinni í Afganistan. Nú gengur hann í íslenskan skóla og hefur eignast vini. Hann er farinn að læra íslensku og miðlar af þeirri kunnáttu sinni til foreldranna og afa og ömmu.

Ruks­h­ar, sem er sex ára, var ekki síður glöð. „Henni líður betur með hverjum deginum sem líður,“ segir faðir hennar. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún upplifað hluti sem ekkert barn á að þurfa að þola. Í árásinni barði hermaður hana aftan á höfuðið með byssuskefti svo hún missti meðvitund. Það blæddi úr vit­um henn­ar; eyra, nefi og aug­um, og um hríð var henni vart hugað líf. Hún lifði af en af­leiðing­ar árás­ar­inn­ar eru al­var­leg­ar. Hún er lömuð öðru meg­in í and­lit­inu, missti sjón á öðru aug­anu og heyrn á öðru eyr­anu. 

„Hún er nú að reyna að fóta sig í lífinu eftir það sem gerðist, gleyma þessu slæma,“ segir Mir Ahmad um líðan dóttur sinnar. Hún hefur kynnst íslenskum jafnöldrum sínum á leikskólanum og er dugleg að læra íslensku. 

Farinn að segja nokkur orð

Saleh litli, sem er fjögurra ára, er einnig á batavegi. Batinn kemur hægt og bítandi. Barninu var svo brugðið við árásina að það mælti ekki orð af vörum í um tvö ár. Aðeins nýverið fór hann að tala örlítið. „Þetta kemur hægt [...] hann er búinn að læra nokkur íslensk orð,“ segir Mir Ahmad. Sjálfstraustið er smám saman að aukast. „Hann er duglegur að leika sér með öðrum börnum í leikskólanum og hér í hverfinu. En hann talar mjög lítið. Hann er enn að glíma við það sem gerðist [í Afganistan]. Hann er mjög góður drengur.“

Zahra segist kunna vel að meta Ísland og að hér hafi hún það gott. Biðin eftir niðurstöðu í máli þeirra hafi þó oft verið erfið. „Áður hugsaði ég mikið um framtíðina. Hvað koma skyldi. Þá var ég eins og í dái. Nú finn ég fyrir létti,“ segir hún.

En biðinni er þó ekki að fullu lokið. Öryggið er ekki enn í hendi. Útlendingastofnun á eftir að taka sína endanlegu ákvörðun. „Við erum vongóð en einnig örlítið áhyggjufull,“ viðurkennir Mir Ahmad. 

Fjölskyldan hefur þegar eignast góða vini á Íslandi sem hún fær í heimsókn og heimsækir og nýtur þess að umgangast. 

Ahmadi-fjölskyldan (f.v.): Ali Ahmad, Mir Ahmad, Anisa, Mikael litli og …
Ahmadi-fjölskyldan (f.v.): Ali Ahmad, Mir Ahmad, Anisa, Mikael litli og Zahra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snjórinn kunnuglegur

Þó að heilmargt sé ólíkt með Íslandi og Afganistan er annað ansi líkt. Snjórinn er gott dæmi um það. Ahmadi-fjölskyldan kvíðir því ekki íslenskum vetri. Þaðan sem þau koma getur snjódýptin náð einum metra. „Það snjóar oft í fjöllunum og líka í þorpinu þar sem við bjuggum. Þannig að við þekkjum snjóinn vel,“ segir Mir Ahmad og móðir hans tekur undir það.

„Ég sakna Afganistans að ákveðnu leyti,“ segir Zahra. „En það var stríð og ófriður og ekkert sem við gátum gert í því ástandi. Þess vegna urðum við að flýja. Við viljum eiga gott líf. Við viljum ekki fara aftur til Afganistans.“

Hún varð einnig fyrir árásinni og var skotin þremur skotum í fótlegginn.

Hún segist ekki geta fullþakkað Íslendingum fyrir þá góðvild sem fjölskyldunni hefur verið sýnd. „Takk, Takk, takk. Ég þakka íslensku þjóðinni. Ég þakka íslensku ríkisstjórninni. Við erum svo glöð, ég get ekki lýst gleði minni og þakklæti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert