Ákærufresturinn 12 vikur frá handtöku

Leitað í flæðarmálinu skammt frá þeim stað þar sem Birna …
Leitað í flæðarmálinu skammt frá þeim stað þar sem Birna fannst. mbl.is/Eggert

„Ég get ekkert farið út í það hvort það hefur eitthvað fundist og þá hvað,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn um leitina sem stendur yfir í Selvogi. Verið er að fylgja eftir ábendingu sem barst lögreglu og á fimmta tug sérhæfðra leitarmanna við störf.

Að sögn Gríms er leitað skammt frá þeim stað þar sem  Birna Brjánsdóttir fannst.

Spurður að því hvort leitað verði fram í myrkur svarar Grímur: „Dagurinn er svo sem ekki langur þótt hann sé farið að lengja. En við ætlum að fara þarna um ákveðið svæði og klára það. Eða þeir fyrir okkur, Landsbjargarmenn.“

Rannsókn málsins miðar ágætlega að sögn Gríms, en mörg handtök séu eftir.

En hillir undir ákæru í málinu?

„Ja, það þarf að vera búið að gefa út ákæru að 12 vikum liðnum frá handtöku eða gæsluvarðhaldi, það er þarna einn sólarhringur sem munar, frá því að málið hefst með þeim hætti þá þarf að vera búið að gefa út ákæru, þannig að áður en að því kemur þarf rannsókn að vera lokið og málið komið til ákæruvalds.“

Maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa ráðið Birnu bana, var handtekinn 18. janúar sl. Hann var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald daginn eftir.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær yfirheyrslur yfir honum hefjast að nýju.

Uppfært kl. 16.25:

Að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns er meðal annars leitað fatnaðar og síma Birnu. „Það er svo sem vitað því þetta er það sem við höfum leitað frá byrjun,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Enn sem komið er hefur ekkert fundist.

Spurður um þá ábendingu sem barst lögreglu segir Ásgeir:

„Þessi vísbending sem kom er eitthvað sem ég tjái mig ekki um en hún er bara hluti af þeirri ástæðu að við förum í þessa leit.“

Hann segir m.a. ákveðið að ráðast í leit nú þar sem aðstæður séu frábærar, veður gott og auðveldara að fá fólk til leitar um helgar.

Ásgeir segir ólíklegt að leitað verði fram í myrkur. Leitarhóparnir séu að klára sín svæði og þá verði leit hætt.

Selvogsviti.
Selvogsviti. mbl.is/Eggert
Við leit.
Við leit. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert