Staða Amirs ekki nægilega viðkvæm

Andri Snær Magnason rithöfundur hitti Amir í Mílanó í dag.
Andri Snær Magnason rithöfundur hitti Amir í Mílanó í dag. Skjáskot/Facebook

Hælisleitandanum Amir Shokrgozar var vísað frá Íslandi til Ítalíu á föstudaginn. Amir er frá Íran en flúði heimaland sitt vegna kynhneigðar sinnar. Amir var áður á flótta á Ítalíu þar sem hann var ofsóttur, bæði líkamlega og andlega, jafnt fyrir kynhneigð sína sem og kristna trú, og var hópnauðgað í flóttamannabúðum þar í landi.

Umsóknum hans um hæli hér á landi hefur verið synjað bæði af Útlendingarstofnun og kærunefnd útlendingamála á þeim grundvelli að Amir er með útgefið dvalarleyfi á Ítalíu og þá ber Ítalía ábyrgð á honum samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni. Þá telst Amir ekki vera í nægilega viðkvæmri stöðu til að falla undir þá viðbótarvernd sem heimilt er að beita í ákveðnum tilfellum; það er heimild til að víkja frá ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar og taka mál til efnismeðferðar.

Frétt mbl.is - Andri Snær: Við erum líka Trump

Farið var fram á frestun réttaráhrifa ákvörðunar kærunefndar útlendingamála um að senda Amir úr landi en þeirri beiðni var hafnað með þeim rökstuðningi að búið væri að fara yfir málið á tveimur stjórnsýslustigum og þar af leiðandi ólíklegt að dómstólar landsins myndu komast að annarri niðurstöðu. „Dyflinnarreglugerðin er rosalega sterk og því miður eru aðstæður Amir þannig að hann telst ekki vera í nægilega viðkvæmri stöðu,“ segir lögmaður hans.

Ný lög um útlendinga breyttu stöðunni

Amir á íslenskan unnusta og því hefur lögmaður hans unnið í því að fá útgefið könnunarvottorð frá sýslumanni til þess að þeir geti gift sig hér á landi. Um áramótin tóku hins vegar gildi ný lög um útlendinga en í 70. grein þeirra er kveðið á um að til þess að hægt sé að sækja um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar þurfi fólk að vera gift í eitt ár eða lengur. „Við þessar lagabreytingar var sá grundvöllur sem við vorum að vinna út frá, að fresta brottflutningi til að fá gefið út könnunarvottorð, fallinn um sjálfan sig,“ segir lögmaður Amirs.

„Því miður er engin grundvöllur fyrir því að krefjast endurupptöku á máli Amirs,“ segir lögmaðurinn. Til þess að hægt sé að fara fram á endurupptöku þurfa samkvæmt stjórnsýslulögum að vera komin fram ný gögn í málinu sem voru ekki til staðar þegar kærunefndin kvað upp sinn úrskurð. 

Réttarstaða Amirs er því erfið hér á landi en lögmaður hans er nú að meta gögn og annað sem viðkemur málinu áður en óskað verður eftir því að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi.

Frétt mbl.is - Leyfum Amir að koma aftur heim

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert