Síðast yfirheyrður á fimmtudaginn

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn. mbl.is/Golli

Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvenær maðurinn sem er í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana, verður yfirheyrður.

Að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur hann ekkert verið yfirheyrður síðan á fimmtudaginn og ekki er fyrirsjáanlegt hvenær það verður. Engin játning liggur fyrir í málinu.

Engin niðurstaða hefur borist úr lífsýnum sem voru tekin af munum um borð í grænlenska skipinu Polar Nanoq en Grímur vonast til þess að fá hana síðar í vikunni.

Upplýsingar um krufningu mögulega í ákæru

Greint hefur verið frá því að Birna hafi hugsanlega verið á lífi við bryggjuna í Hafnarfirði. Grímur vill ekki staðfesta það. „Ég hef ekkert viljað segja með niðurstöðu úr krufningunni. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort það verði gert. Það gæti ekkert orðið fyrr en og ef gefin verður út ákæra,“ segir hann og telur mögulegt að upplýsingarnar myndu koma fram í henni.

Spurður hvort lögreglan sé að leita að vopni kveðst Grímur ekki geta upplýst um hvort talið sé að vopni hafi verið beitt eða ekki.

Jafnframt er enn verið að vinna úr gögnum úr myndbandsupptökum og farsímum.

„Talað við gríðarlega marga“

Grímur getur ekki gefið upp hversu margir hafa farið í skýrslutöku vegna málsins. „Það hefur verið talað við gríðarlega marga einstaklinga og skrifaðar margar skýrslur, þannig að það hafa verið unnin mjög mörg handtök í þessu máli.“

Um tíu lögreglumenn starfa eingöngu við að upplýsa mál Birnu og fíkniefnafundinn um borð í Polar Nanoq. Fleiri lögreglumenn starfa einnig við málin tvö meðfram öðrum verkefnum.

Varðandi fíkniefnamálið segir Grímur að sú rannsókn sé í fullum gangi og að meðal annars hafi lögreglan verið í samskiptum við kollega sína í Grænlandi.

Nýjar vísbendingar á hverjum degi 

Umfangsmikil leit var gerð á Reykjanesi í gær eftir ábendingu sem lögreglunni barst. Engin önnur leit er fyrirhuguð. Spurður segir hann að nýjar vísbendingar berist frá fólki á hverjum degi og að einni og einni sé fylgt eftir.

Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út á fimmtudaginn í næstu viku. „Ég er vongóður um að málið skýrist enn betur á þeim tíma,“ segir Grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert