132 bíða þess að komast af spítalanum

Ónýtt sjúkrarúm eru sjaldséð sjón á Landspítala.
Ónýtt sjúkrarúm eru sjaldséð sjón á Landspítala. mbl.is/Golli

Í dag liggja 92 einstaklingar með færni- og heilsumat á Landspítala og bíða þess að verða úthlutað hjúkrunarrými. Þetta jafngildir því að í ríflega 21% legurýma á flæðis-, skurð- og lyflækningasviði spítalans séu einstaklingar sem eru tilbúnir til útskriftar á hjúkrunarheimili. Áður en einstaklingur fær fyrrnefnt mat hefur hann beðið í 39 daga á spítalanum, að jafnaði.

Þetta kemur fram í skriflegum svörum Landspítala við fyrirspurn mbl.is en þar segir einnig að 32 einstaklingar hafi beðið í tvo mánuði eða lengur eftir að hafa fengið færni- og heilsumat. Þá hafa fimmtán beðið lengur en 100 daga og fjórir lengur en sex mánuði.

Í janúar 2014 biðu 45 eftir hjúkrunarrými en síðan hefur fjöldinn aukist jafnt og þétt.

30 sjúklingar voru fluttir á hjúkrunarheimili í nóvember sl., 32 í desember og 29 í janúar.

mbl.is spurði m.a. að því hversu margir lægju á Landspítalanum og biðu eftir öðrum úrræðum. Í svari spítalans sagði m.a. að aldraðir væru ekki eingöngu að bíða eftir hjúkrunarrýmum; þannig væru 29 að bíða eftir endurhæfingu á Landakoti og 11 eftir brotaendurhæfingu á Eir.

Í dag biðu alls 132 einstaklingar á Landspítala eftir þjónustu.

Þessu til viðbótar eru einhverjir einstaklingar sem bíða eftir að komast heim þar sem ekki hefur tekist að byggja næginlega utan um einstaklinginn af hálfu félags- og/eða heimahjúkrun,“ segir í svarinu.

Átta geðfatlaðir einstaklingar bíða eftir búsetuúrræðum en lítið hefur breyst í þeim efnum undanfarin ár.

Samkvæmt svari spítalans hafa 87-105 einstaklingar beðið eftir hjúkrunarrými undanfarna mánuði. Staðan hafi þyngst síðastliðið ár, enda hafi engin ný hjúkrunarrými opnað í umtalsvert langan tíma.

Páll Matthíasson.
Páll Matthíasson. mbl.is/Golli

Nauðsynlegt að virkja kraft þeirra sem þekkja rekstur hjúkrunarheimila

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að setja þurfi þennan hóp í forgang. Dvöl á spítala, við misjafnar aðstæður, sé ekki góður kostur fyrir svo viðkvæman hóp.

„Uppbygging hjúkrunarrýma og annarrar þjónustu sem bætt getur lífgæði eldri borgara ætti að vera algjört forgangsmál samfélagsins og þar berum við öll ábyrgð; starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar, eftirlitsaðilar, ættingjar og stjórnmálamenn. Það liggur fyrir að þörfin mun aukast og við eigum að leita allra leiða til að mæta þessari áskorun. Eldra fólk eru þeir sem helst nýta sér þjónustu Landspítala og ef til vill mikilvægustu „viðskiptavinirnir“ svo það er okkur hjartans mál að vel sé að fólkinu búið þegar sérfræðiþekkingu okkar sleppir," segir í skriflegu svari forstjóra.

Hann segir spítalann leita allra leiða til að tryggja örugga útskrift eldra fólks, sem og annarra sjúklinga, m.a. í samstarfi við nágrannasjúkrahúsin og öldrunarstofnanir.

„Það er afar mikilvægt að Landspítali sé vel í stakk búinn til að sinna sínu kjarnahlutverki í heilbrigðisþjónustu við alla landsmenn, unga sem aldna,  og því er nauðsynlegt að fólk fái þjónustu við hæfi, á stað við hæfi og útskrifist um leið og það er fært um, í viðeigandi þjónustu. Landspítali hefur ekki sérhæft sig í rekstri hjúkrunarheimila en það hafa aðrir aðilar opinberir sem og einkaaðilar gert með miklum sólma. Þann kraft verður að virkja enn frekar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert