Ítrekar andstöðu við áfengisfrumvarp

Embætti landlæknis.
Embætti landlæknis. mbl/ Kristinn Ingvarsson

Embætti landlæknis hefur ítrekað andstöðu sína við frumvarp um aukið aðgengi að áfengi.

„Aukið aðgengi að áfengi, sem leiðir til aukinnar áfengisneyslu, er líklegt til að auka tíðni einstaklingsbundinna og samfélagslegra vandamála samfara stórauknum samfélagslegum kostnaði. Samfélagsleg áhrif geta meðal annars verið aukin fjarvera vegna veikinda,  þjófnaðir, öryggisleysi vegna áfengisneyslu annarra, slys og ofbeldi,“ segir á vefsíðu Landlæknis en undir greinina skrifa verkefnisstjórar áfengisvarna.

Þar kemur fram að mikilvægt sé að skoða heildarmyndina og hafa heilbrigðissjónarmið að leiðarljósi áður en tvær af þremur virkustu forvarnaraðgerðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru afnumdar, þ.e. takmörkun á aðgengi og bann við auglýsingum.

Hvítvín í verslun ÁTVR.
Hvítvín í verslun ÁTVR. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

Einnig er bent á samnorræna rannsókn á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar þar sem kemur fram að margir verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna áfengisdrykkju annarra.

„Nái frumvarpið fram að ganga eru stórauknar líkur á  skaðlegum áhrifum á þá sem neyta áfengis í óhófi, fjölskyldur þeirra og einnig á þriðja aðila.

Óbeinar reykingar og áhrif þeirra hafa fengið athygli og sett hafa verið lög og reglur til að takmarka áhrifin á aðra en þá sem reykja. Á sama hátt á að taka tillit til óbeinna áhrifa áfengisneyslu, enda hefur það verið metið svo að áfengi valdi jafnvel fleiri dauðsföllum en tóbak.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert