Vilja að Alþingi fordæmi tilskipunina

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn frá þremur stjórnmálaflokkum hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi þess efnis að Alþingi fordæmi harðlega tilskipun Donalds Tump Bandaríkjaforseta um ferðabann fólks frá sjö ríkjum til Bandaríkjanna þar sem múslimar eru í meirihluta.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi: „Alþingi fordæmir harðlega tilskipun forseta Bandaríkjanna sem beinist gegn múslimum, með því að neita ríkisborgurum sjö ríkja og fólki með uppruna í þeim ríkjum að ferðast til Bandaríkjanna.“

Fram kemur í greinarferð með tillögunni að tilskipunin sé fordæmalaus og lýsi mannfyrirlitningu, byggist á fordómum og grafi undan mannréttindum og lýðræðislegum gildum sem almennt séu viðurkennd í vestrænum lýðræðisríkjum. Þá sé hún fremur til þess fallin að kynda undir ófriði en tryggja öryggi.

Fyrsti flutningsmaður er Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, en aðrir flutningsmenn eru Oddný G. Harðardóttir og Guðjón S. Brjánsson samflokksmenn hans, Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Smári McCarthy, Viktor Orri Valgarðsson og Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmenn Pírata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert