Auður Ava, RAX og Hildur verðlaunuð

Íslensku bókmenntaverðlaunin afhent á Bessastöðum. Ragnar Axelsson hlaut verðlaunin í …
Íslensku bókmenntaverðlaunin afhent á Bessastöðum. Ragnar Axelsson hlaut verðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fyrir ljósmyndabókina Andlit norðursins, Auður Ava Ólafsdóttir hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Ör og Hildur Knútsdóttir hlaut í flokki barna- og ungmennabóka fyrir hrollvekjuna Vetrarhörkur. Hildur var fjarri góðu gamni og tók systir hennar, Rún Knútsdóttir, á móti verðlaununum fyrir hennar hönd. mbl.is/Golli

Auður Ava Ólafsdóttir, Ragnar Axelsson og Hildur Knútsdóttir hlutu fyrr í kvöld Íslensku bókmenntaverðlaunin 2016 er þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í 28. sinn, en það var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhenti verðlaunin.

Auður Ava hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Ör, Ragnar í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fyrir ljósmyndabókina Andlit norðursins og Hildur í flokki barna- og ungmennabóka fyrir hrollvekjuna Vetrarhörkur.

Hver höfundur hlýtur eina milljón króna í verðlaunafé.

Í samtali við Morgunblaðið ræddu verðlaunahöfundarnir aðsteðjandi ógnir samtímans sem birtast í loftlagsbreytingum af mannavöldum, stríðum og flóttafólki sem er umfjöllunarefni bóka þeirra.

„Starfslaunin gáfu mér sjálfstraust til að segja upp kennarastöðu við …
„Starfslaunin gáfu mér sjálfstraust til að segja upp kennarastöðu við Háskóla Íslands, fara fram af hengifluginu og einbeita mér alfarið að skrifum," segir Auður Ava Ólafsdóttir. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Mikilvægur stuðningur að heiman út í heim

„Ég er mjög ánægð og þakklát fyrir að hljóta þessi verðlaun. Þau virka eins og klapp á bakið og eru mikilvægur stuðningur að heiman út í heim,“ segir Auður Ava Ólafsdóttir, höfundur skáldsögunnar Ör.

„Mér finnst óneitanlega gaman að vera komin í hóp með hinum strákunum og nokkrum flottum kvenrithöfundum sem hlotið hafa verðlaunin,“ segir Auður Ava sem er áttunda konan sem hlýtur Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta, en alls hafa 19 karlmenn hlotið verðlaunin í sama flokki, en sé horft til allra flokkanna þriggja hafa 15 konur hlotið verðlaunin en á fimmta tug karla.

Í upphafi árs 2015 fékk Auður Ava úthlutað starfslaunum rithöfunda til 24 mánaða og Ör er að stórum hluta skrifuð á þeim launum. Spurð hvaða þýðingu starfslaunin hafi haft fyrir sig segir Auður Ava þau hafa gert sér kleift að sinna skrifum í fullu starfi.

„Starfslaunin gáfu mér sjálfstraust til að segja upp kennarastöðu við Háskóla Íslands, fara fram af hengifluginu og einbeita mér alfarið að skrifum. Fram að því hafði ég skrifað á kvöldin og um helgar samhliða fullu starfi, sem var þreytandi til lengdar,“ segir Auður Ava og tekur fram að dapurlegt sé að heyra árlegar úrtöluraddir um starfslaun listamanna þegar allar rannsóknir sýni fram á hversu gríðarleg jákvæð hagræn áhrif stuðningur við listir hafi. 

Loftslagsbreytingar af mannavöldum er stærsta málið á jörðinni nú um …
Loftslagsbreytingar af mannavöldum er stærsta málið á jörðinni nú um stundir. Ég hef vitað það lengi, því ég hef gengið á þessum bráðnandi blaðsíðum sem hafísinn er árum og áratugum saman,“ segir Ragnar Axelsson ljósmyndari.

Viðurkenning á ljósmyndinni sem hluta af sagnfræði nútímans

„Ég er auðvitað bæði glaður og stoltur,“ segir Ragnar Axelsson, höfundur ljósmyndabókarinnar Andlit norðursins, þegar hann er inntur eftir viðbrögðum.

„Þessi verðlaun eru ákveðin viðurkenning á ljósmyndinni sem skráningartæki og hluta af sagnfræði nútímans,“ segir Ragnar sem á umliðnum árum hefur unnið ötult starf við að skrásetja lífshætti íbúa á norðurslóðum og tileinkaði þeim bókina í þakkarræðu sinni.

„Lífshættir íbúanna taka nú hröðum breytingum vegna hlýnunar loftlagsins. Oft á tíðum hefur mér liðið eins og Palla sem var einn í heiminum þegar ég hef verið að skrásetja breytingarnar á norðurhveli jarðar,“ segir Ragnar og bendir á að slík skrásetning sé ekki sjálfsögð og gerist ekki af sjálfu sér.

Loftlagsbreytingar af mannavöldum stærsta málið nú um stundir

„Það þarf að fara á staðina, ávinna sér traust íbúa og leggja mikið á sig til að ná rétta augnablikinu. Loftslagsbreytingar af mannavöldum er stærsta málið á jörðinni nú um stundir. Ég hef vitað það lengi, því ég hef gengið á þessum bráðnandi blaðsíðum sem hafísinn er árum og áratugum saman,“ segir Ragnar.

Aðspurður segist Ragnar ekki í vafa um að Íslensku bókmenntaverðlaunin muni koma honum til góða í þeim verkefnum sem eru fram undan.

„Sem stendur er verið að vinna í fjármögnun bókarinnar, en draumurinn er að ég geti einbeitt mér alfarið að bókinni í tvö til þrjú ár. Hingað til hef ég unnið bækur mínar í frítímanum meðfram fullri vinnu og þá tekur svo langan tíma að vinna þær. En vegna þeirra breytinga sem orðið hafa í heiminum og fram undan eru erum við komin í kapphlaup við tímann,“ segir Ragnar og bendir á að mikils metnir vísindamenn og heimþekktir einstaklingar séu meðal þeirra sem munu skrifa í heimskautabókina.

„Ég er sannfærður um að þessi verðlaun muni hjálpa heimskautabókinni minni að fara á meira flug. Ég get því ekki annað en verið þakklátur dómnefndinni og framsýni hennar.“

Hildur Knútsdóttir segir löngu tímabært að verðlauna í flokki barna- …
Hildur Knútsdóttir segir löngu tímabært að verðlauna í flokki barna- og ungmennabóka. mbl.is/Árni Sæberg

Eykur líkurnar að vera með tvær í pottinum

„Ég neita því ekki að þetta kom mér á óvart, en vissulega mætti segja að ég hafi aukið líkur mínar með því að vera með tvær bækur í pottinum,“ segir Hildur Knútsdóttir, höfundur hrollvekjunnar Vetrarhörkur, sem er seinni hluti Vetrarfrís sem út kom í fyrra og var líka tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hildur var í ár ásamt Þórdísi Gísladóttur einnig tilnefnd fyrir Dodda: bók sannleikans!

Hildur var stödd í Bandaríkjunum í boði þarlendra stjórnvalda þegar blaðamaður náði tali af henni fyrr í dag og missti þar af leiðandi af verðlaunaafhendingunni. „Mér bauðst ásamt 22 öðrum þátttakendum víðs vegar að úr heiminum að taka þátt í þriggja vikna prógrammi um loftslagsbreytingar og endurnýjanlega orku,“ segir Hildur sem væntanleg er til landsins á föstudag.

Spurð hvaða áhrif verðlaunin hafi segir Hildur þau sér mikla hvatningu. „Það er auðvitað frábært að fá viðurkenningu. Það var orðið löngu tímabært að verðlauna í flokki barna- og ungmennabóka, því allt hangir saman,“ segir Hildur og bendir á að eitt af því sem launasjóður rithöfunda horfi til við úthlutanir starfslauna sé hvort bækur höfunda hafi hlotið tilnefningar og verðlaun.

„Verðlaunin sem slík hafa þannig bæði praktísk og táknræn gildi,“ segir Hildur sem í ár og í fyrra hlaut sex mánaða starfslaun rithöfunda og þrjá mánuði árið 2015. „Ég á tvö lítil börn og þarf að borga reikninga, þannig að ég hefði ekki getað sinnt skrifunum ef ég hefði ekki fengið starfslaun. Ef við ætlum að eiga atvinnurithöfunda verðum við að hafa launasjóð,“ segir Hildur.

Innt eftir því hvað sé fram undan hjá sér segir Hildur að til standi að gefa Vetrarfrí og Vetrarhörkur út bæði í Frakklandi og Sádi-Arabíu. „Við Þórdís munum skrifa aðra bók um Dodda sem væntanleg er fyrir jólin. Síðan er ég að byrja á nýjum þríleik sem gerist á Íslandi.“ 

Auður Ava Ólafsdóttir (t.h.) hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir …
Auður Ava Ólafsdóttir (t.h.) hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Ör, Ragnar Axelsson (fyrir miðju) hlaut verðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fyrir ljósmyndabókina Andlit norðursins. Systir Hildar Knútsdóttur, sem hlaut verðlaun í flokki barna- og ungmennabóka fyrir hrollvekjuna Vetrarhörkur, tók á móti verðlaununum fyrir hennar hönd. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert