Borgar 175 þúsund af 47 fermetra íbúð

Litið yfir Kársnesið.
Litið yfir Kársnesið.

Um það bil 175 þúsund krónur á mánuði þarf sá að borga, sem kaupir 47 fermetra íbúð við Kársnesbraut 106 í Kópavogi, og fær til þess 85% óverðtryggt lán frá Landsbankanum og 10% lán frá seljandanum, Þaki byggingarfélagi, samkvæmt útreikningum mbl.is.

Þá hefur kaupandinn þegar borgað 5% af kaupverði íbúðarinnar, eða 1.195.000 krónur af 23,9 milljónum.

Seljendalán til sjö ára

Athygli vakti frétt mbl.is á sunnudag, um að Þak bygg­ing­ar­fé­lag hef­ði hafið sölu á tíu íbúðum við Kárs­nes­braut 106 í Kópa­vogi, og að kaup­end­um stæði til boða allt að 95% fjár­mögn­um við kaup­in, með þeim hætti að seljandinn veitti allt að 15% lán á móti 80% íbúðalánum fjármálafyrirtækja.

Selj­endalánið er til allt að sjö ára og ber 9,8% óverðtryggða vexti, sem eru töluvert hærri en viðskiptabankarnir bjóða viðskiptavinum sínum. Til samanburðar fæst sjö ára óverðtryggt lán hjá Landsbankanum á 7,5% breytilegum vöxtum.

Sverrir Einar Eiríksson, fulltrúi félagsins, sagði þá í samtali við mbl.is að miðað við fulla lengd lánstíma, og algengt vaxtastig íbúðalána hjá viðskiptabönkunum, yrði heild­ar­greiðslu­byrði vegna kaupa íbúðar í ódýr­asta flokkn­um í kring­um 91 þúsund krón­ur á mánuði.

Eftir útreikninga mbl.is, sem gerðir voru með aðstoð lánareiknivélar Landsbankans - sem býður upp á 85% íbúðalán, kemur í ljós að þessi fullyrðing er nærri lagi.

Frá Kópavogi. Íbúðirnar standa við Kársnesbraut þar í bæ.
Frá Kópavogi. Íbúðirnar standa við Kársnesbraut þar í bæ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nauðsynlegt að taka viðbótarlán frá 70% upp í 85%

Ódýrasta íbúðin, sem er 29 fermetrar að stærð, er til sölu á 15,9 milljónir króna. Taki kaupandi hennar verðtryggt lán hjá bankanum til fjörutíu ára, sem nemur 85% af kaupverðinu, eða 13.515.000 krónur, þarf hann í fyrstu að borga í kringum 67 þúsund krónur á mánuði.

Tekið skal fram að inni í þessu er falið svokallað viðbótarlán til fimmtán ára, sem nauðsynlegt er að taka hjá bankanum fyrir þeirri upphæð sem er umfram 70% af kaupverðinu. Þá er miðað við að kaupandi taki 85% lán hjá viðskiptabanka sínum, fremur en 80%, þar sem það er hagstæðara en það sem býðst hjá seljandanum.

Síðasta greiðslan til bankans, í febrúar 2057, nemur samkvæmt þessu tæpum 94 þúsund krónum, eins og næstu greiðslur þar á undan, miðað við 1,9% verðbólgu.

95 til 116 þúsund á mánuði fyrir 29 fermetra

Taki kaupandinn enn fremur boði seljandans, um lán upp að 95% af andvirði íbúðarinnar, eða um 10% til viðbótar, jafngildir það lán 1.590.000 krónum. Fyrstu sjö árin borgar hann af því láni samkvæmt 9,8% óverðtryggðum vöxtum, eins og áður var greint frá. Nema afborganir þess í kringum 26.232 krónur á mánuði, í 84 mánuði.

Samtals greiðir kaupandi þessarar 29 fermetra íbúðar því um 95 þúsund krónur á mánuði, fyrstu sjö árin. Þá er lánið frá seljandanum uppgreitt og aðeins eftir að greiða bankanum, en að sjö árum liðnum nema afborganir til bankans með vöxtum um 71.500 krónum á mánuði.

Ákveði kaupandinn hins vegar að taka frekar óverðtryggt 85% lán, með 6,5% breytilegum vöxtum, og viðbótarlán með 7,5% breytilegum vöxtum, auk seljandalánsins, greiðir hann í kringum 116 þúsund á mánuði fyrstu sjö árin, samtals til bankans og seljandans.

Að sjö árum liðnum hefur hann greitt seljandanum 2.200.878 krónur, fyrir lán að verðmæti kr. 1.590.000.

Samtals nemur fjármögnunin 95% af kaupverði íbúðanna.
Samtals nemur fjármögnunin 95% af kaupverði íbúðanna. mbl.is/Árni Sæberg

143 til 175 þúsund á mánuði fyrir 47 fermetra

Dýrasta íbúðin sem er til sölu að Kársnesbraut 106 fæst á 23,9 milljónir króna, en hún er 47 fermetrar að stærð. Taki kaupandi þeirrar íbúðar verðtryggt 85% lán, auk seljandaláns með sama fyrirkomulagi og sá fyrri, greiðir hann samtals í kringum 143 þúsund á mánuði fyrstu sjö árin, eftir að hafa sjálfur innt af hendi 1.195.000 krónur.

Taki hann hins vegar að óverðtryggt lán fyrir 85% af kaupverðinu, með seljendaláni upp á 10% til viðbótar, greiðir hann í kringum 175 þúsund krónur á mánuði, fyrstu sjö árin. Þar af renna að meðaltali 135 þúsund krónur til bankans, en rúmlega 39 þúsund krónur til seljandans.

Að sjö árum liðnum hefur umræddur kaupandi greitt seljandanum 3.308.247 krónur, fyrir lán að verðmæti kr. 2.390.000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert