Ekki hægt að fullyrða um „kynbundinn“ launamun

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. Eggert Jóhannesson

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra dregur kynbundinn launamun í efa í grein sem hún skrifar í árshátíðarrit laganema við Háskóla Íslands. Í greininni vísar Sigríður til þess að í launakönnunum komi fram launamunur, en þegar leiðrétt hafi verið fyrir þáttum á borð við vinnutíma, mannaforráðum, menntun og reynslu þá sé aðeins eftir um 5% tölfræðilegur marktækur munur á kynjunum. Segir hún að þar til viðbótar bætist huglægir ómælanlegir þættir sem erfitt sé að fella inn í líkön af þessu tagi.

Sigríður segir vinnumarkaðinn einnig talsvert kynjaskiptan, þ.e. í svonefnd kvennastörf og karlastörf, sem þvælist fyrir raunhæfum samanburði. „Það má því segja að þótt kannanir mæli enn um 5% „kynbundinn“ launamun þá er hann of lítill til að hægt sé að fullyrða nokkuð um kynbundið misrétti á launamarkaði,“ segir í greininni.

Ráðherra segir að miðað við umræðuna í þessum málaflokki mætti ætla að „langt sé í landi í „jafnréttismálum“.“ Telur hún að þrýstingur á opinberar aðgerðir í jafnréttismálum eins og kynjakvóta og jafnlaunavottanir myndi minnka ef þessum tölfræðilegu atriðum yrðu gerð betri skil í opinberri umræðu.

Á samfélagsmiðlinum hefur verið bent á notkun dómsmálaráðherra á gæsalöppum í kringum orðin „kynbundinn“ og „jafnréttismálum“ í greininni. Hildur Hjörvar, meistaranemi í lögfræði, segir á Twitter-síðu sinni að framlag ráðherra sé að draga tilvist og mikilvægi kynbundins launamunar í efa.

Hildur Hjörvar.
Hildur Hjörvar.

„Ég furða mig á því að ráðherra tali um kynbundinn launamun innan gæsalappa, þegar skýrslan sem hún vísar í kemst bókstaflega að þeirri niðurstöðu að til staðar sé marktækur kynbundinn launamunur. Þær ástæður sem hún notar til að útskýra þennan kynbundna mun – að konur eyði meiri tíma með börnum heldur en karlar og að starfsmenn séu misduglegir – eiga sér ekki stoð í skýrslunni, né vísar hún í nokkuð annað um þessar ástæður, sem hún telur að geri þann 5,7-7,6% kynbundna launamun sem til staðar er ómarktækan,“ segir Hildur við mbl.is.

Þá gagnrýnir hún jafnframt að Sigríður tali um jafnréttismál innan gæsalappa og telji að einhver mýta um kynbundinn launamun eigi án vafa drýgstan þátt í að talið sé að langt sé í land í jafnréttismálum. „Ófullnægjandi meðferð kynbundins ofbeldis og kynferðisofbeldis í réttarkerfinu og lök staða kvenna í dómstólum landsins – málaflokkar sem ráðherrann fer með – eru ekki síður merki þess að mikið verk er enn óunnið í jafnréttisbaráttunni,“ segir Hildur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert