Ekki lögð áhersla á að finna vopn við rannsóknina

Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð.
Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð. mbl.is/Golli

Sakborningi í sakamáli tengdu andláti Birnu Brjánsdóttur hafa verið kynntar þær upplýsingar sem lögreglan hefur undir höndum. Játning liggur ekki fyrir. Í gær staðfesti Hæstiréttur Íslands tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir grænlenska skipverjanum af Polar Nanoq.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn sakamálsins, segir að maðurinn verði yfirheyrður á næstu dögum, en ekki sé komin nákvæm tímasetning á því. Þá gerir Grímur ráð fyrir því að rannsókn málsins muni ljúka á næstu vikum og í framhaldinu taki héraðssaksóknari ákvörðun um ákæru.

Engin frekari gögn

Enn er unnið úr tækni- og símagögnum sem gegnt hafa lykilhlutverki við rannsókn málsins. Þeirri vinnu er ólokið. „Við höfum ekki fengið frekari gögn á undanförnum dögum en þau sem við vorum með. Við erum eingöngu að klára það að setja þau inn í rannsóknina. Heildarmyndin hefur legið fyrir í nokkurn tíma, en svo er verið að ganga frá lausum endum og gögnin unnin í þaula áður en þau eru sett inn í sakamálin,“ segir Grímur.

Sagt var á vef RÚV að drukknun hefði verið dánarorsök Birnu en einnig að þrengt hefði verið að öndunarvegi hennar áður henni var varpað í sjóinn. Grímur vildi ekki staðfesta þetta þegar eftir því var leitað. En líkt og fram hefur komið fannst blóð úr Birnu í rauða Kia Rio-bílnum sem hinn grunaði hafði til umráða nóttina sem Birna hvarf.

Síminn efstur á blaði

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er ekki talið að vopn hafi leitt til þess að blóðið úr Birnu hafi komist í bílinn. „Síminn er efstur á blaði,“ segir Grímur, spurður um þau sönnunargögn sem lögreglan leitar helst að við rannsóknina og á þar með við farsíma Birnu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert