Ljóst að fjölmiðlar hafi séð myndbandið

Kia Rio-bifreiðin við Hafnarfjarðarhöfn.
Kia Rio-bifreiðin við Hafnarfjarðarhöfn.

Rannsókn lögreglu á máli mannsins, sem grunaður er um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur, miðar ágætlega. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Vísir hefur fullyrt að sá grunaði, sem nú situr í gæsluvarðhaldi, sjáist þrífa rauða Kia Rio-bílinn að innan og utan við Hafnarfjarðarhöfn. Þetta muni sjást á upptökum úr eftirlitsmyndavélum sem séu á meðal gagna málsins.

Aðspurður segist Grímur ekki geta staðfest þetta.

„Ég hef ekki farið út í það hvað kemur fram á þessum myndböndum. Það er augljóst að einhverjir fjölmiðlar hafa séð þetta myndband af bryggjunni, en ég hef ekki viljað staðfesta neitt um efni myndbandanna.“

Vika frá síðustu yfirheyrslu

Á annan tug manna vinnur enn að rannsókn málsins að sögn Gríms.

Hann segir það möguleika að lögreglan fái það aldrei upplýst, hvert bílnum var ekið þá fjóra tíma sem hann hverfur á brott frá bryggjunni.

„Við höfum engin hlutlæg gögn í höndunum, þar sem hægt er að fylgja honum eftir með einum eða öðrum hætti,“ segir Grímur. Upplýsingar þess efnis gætu þó komið frá hinum grunaða, gefi hann þær upp.

Ekki hefur verið ákvörðun um hvenær hann verður næst yfirheyrður, en vika er nú liðin frá síðustu yfirheyrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert