Skýrslan kom landlækni mjög á óvart

Gömul ljósmynd af Kópavogshæli. Í skýrslunni er fjallað um vistun …
Gömul ljósmynd af Kópavogshæli. Í skýrslunni er fjallað um vistun barna á hælinu á árunum 1953 til 1993.

Birgir Jakobsson landlæknir segir að niðurstöður skýrslu vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshæli hafi komið sér verulega á óvart. Hann hefur ekki lesið skýrsluna en segir skelfilegt að heyra af því sem þar kemur fram.

Í skýrslunni, þar sem fjallað er um starfsemi hælisins á árunum 1953 til 1993, kemur fram að landlæknir hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar með því að láta hjá líða að skipuleggja og sinna markvissu og reglubundu eftirliti með starfsemi hælisins.

Eftirlitsstofnanir brugðust

„Augljóslega hafa eftirlitsstofnanir brugðist hlutverki sínu að einhverju leyti þarna. Það er erfitt annað en að gangast við því,“ segir Birgir, sem telur næsta skref að reyna að læra af því sem kemur fram í skýrslunni. „Ég held að það sé kannski rétta leiðin til að nálgast þetta vandamál en við verðum að gera okkur grein fyrir því að sem betur fer hefur margt breyst síðan þá.“

Hann bætir við: „Þessar niðurstöður komu mér verulega á óvart en maður verður að vera viðbúinn því að það geta komið upp hlutir sem eru nánast sjokkerandi fyrir okkur og þetta er einn af slíkum atburðum."

Birgir Jakobsson landlæknir.
Birgir Jakobsson landlæknir. mbl.is/Hallur

Þarf að forgangsraða í eftirliti

Að sögn Birgis er Embætti landlæknis í sambandi við eftirlitsstofnanir bæði á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Eitt af aðalmálum eftirlitsstofnana sé að forgangsraða eftirliti sínu.

„Ef við lítum á Ísland eru um 2.000 aðilar að veita heilbrigðisþjónustu sem ætti að lúta eftirliti Embættis landlæknis. Það segir sig sjálft að maður kemst ekki yfir að hafa eftirlit með þessu öllu. Það sama á við um erlendu stofnanirnar sem við höfum samskipti við.“

Efla áhættumatið 

Birgir bendir á að stofnarnir geri áhættumat þar sem búnir eru til gæðavísar um hvar skuli farið inn með eftirlit. Einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á það er umfjöllun fjölmiðla um ákveðin mál. „Ef upp koma slíkar sögur eða fréttir getur það vegið þungt í slíku áhættumati.“

Hann segir að íslenskt heilbrigðiskerfi sé komið skammt á veg með að notfæra sér gæðavísa, að minnsta kosti miðað við hin Norðurlandaríkin. Verið sé að vinna í því að heilbrigðisþjónustan sýni fram á slíka vísa og að þær kröfur séu uppfylltar.

„Ég held að eftirlitsstofnanir séu meðvitaðar um þessa áhættu en þær eru fæstar í stakk búnar til að fylgjast með öllu því sem er að gerast,“ segir hann en bendir á að nokkrir starfsmenn landlæknis fari í heimsóknir á heilbrigðisstofnanir, skoði og spyrji spurninga.

„Síðastliðin tvö ár höfum við verið að efla áhættumat okkar, með því til dæmis að reyna að forgangsraða hvar við eigum að drepa niður fæti. Þessi skýrsla breytir því ekki, nema að minna á að maður þarf að vera vel á varðbergi.“

Embætti landlæknis.
Embætti landlæknis. mbl.is/Kristinn

Aukin virðing fyrir einstaklingum

Birgir segir að staða mála sé orðin mun betri en áður. „Ég vil ekki meina að það sé bara eftirlitsstofnunum að þakka. Það hafa almennt orðið breytingar á gildismati í þjóðfélaginu, sem betur fer, í þá átt að virðing fyrir einstaklingum hefur á flestum sviðum aukist. Ég held að það geri það að verkum að vonandi gerast svona hlutir ekki aftur en maður getur aldrei verið viss,“ segir landlæknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert