Sorgmæddur yfir skýrslunni

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég eins og aðrir fagna þessari skýrslu. Það er mikilvægt og gott að fá hana en maður er dálítið sorgmæddur yfir því sem þarna kemur fram,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra um skýrslu vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshæli á árunum 1953 til 1993.

Óttarr segir mikilvægt að þessar upplýsingar hafi komið fram í skýrslunni, bæði gagnvart þeim sem brotið hefur verið á og einnig fyrir stjórnvöld til að læra af og geta brugðist við.

„Maður gerir sér grein fyrir því að þarna er verið að fjalla um hluti sem eru í fortíðinni og það hefur til allrar hamingju margt breyst í verklagi. Síðan höfum við til dæmis samþykkt, bæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem við erum að vinna eftir í dag. En við þurfum auðvitað að setjast niður og rýna skýrsluna út frá því. Hún er mikilvægt innlegg í þá vinnu,“ greinir hann frá.

Húsnæði gamla Kópavogshælis.
Húsnæði gamla Kópavogshælis. mbl.is/Golli

Hlutirnir voru ekki til fyrirmyndar

Vistheimilanefnd ályktar í skýrslunni að heilbrigðisráðuneytið hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar með því að marka ekki skýra stefnu og setja lögbundnar reglugerðir sem skýrt hefðu getað hlutverk og starfsemi Kópavogshælis og aðbúnað barna á hverjum tíma. Þá hafi ráðuneytið ekki uppfyllt það eftirlitshlutverk sitt að tryggja að starfsemi Kópavogshælis uppfyllti skilyrði laga og reglugerða sem um hælið giltu.

Óttarr segir niðurstöðu skýrslunnar hafa komið sér á óvart þegar hann sá hana svart á hvítu. „En ég held að við höfum öll gert okkur grein fyrir því að hlutirnir voru öðruvísi og ekki til fyrirmyndar. Við höfum á síðustu áratugum verið að læra af því og orðið meðvitaðari um mannréttindi og mikilvægi þeirra í allri vinnu með einstaklingum sem minna mega sín.“

Að mati Óttars er mikilvægt að umræða fari fram um skýrsluna. „Umræðan er mikilvæg til þess að brýna okkur að passa upp á allt sem verið  er að gera og að passa upp á svona lagað gerist ekki aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert