Áhyggjur af framtíð Fram-svæðisins

Íbúar og foreldrar í Safamýrarhverfi hafa margir áhyggjur af því að brottför Knattspyrnufélagsins Fram úr hverfinu þýði að stór hluti íþróttasvæðisins verði notaður til að þétta og stækka íbúabyggð á svæðinu. Borgin hafi sýnt í langdregnu flutningsferli félagsins að ekki sé alltaf staðið við gerða samninga.

„Við munum tryggja að það verði íþróttastarf í Safamýri áfram, það er alveg ljóst. Það er einn af hlutum samningsins sem verður á endanum undirritaður,“ sagði Sigurður Ingi Tómasson formaður Fram í samtali við mbl.is í dag. Hins vegar hefur ekkert verið ákveðið um hvaða félag myndi halda utan um það starf.

Knattspyrnufélagið Þróttur hefur gjarnan verið nefnt í því samhengi en Gróa Másdóttir, íbúi og foreldri í Safamýrarhverfinu, segir það hins vegar alveg óljóst hvort félagið hafi áhuga á því. Þá eigi hún börn í félaginu sem hún eigi erfitt með að sjá að vilji skipta um félag.

Gróa segir að ljóst sé að aðkoma borgarinnar að flutningum Fram sé ekki til þess fallin að auka traust á gerðum samningum við borgina og í ljósi þess að svæðið sé verðmætt byggingarland sé full ástæða til að hafa áhyggjur af því að þar verði byggt þegar félagið hverfur alfarið úr hverfinu.  

Íbúafundur verður haldinn í dag þar sem fulltrúar Fram ræða bæði við íbúa í Safamýri og Úlfarsárdal en þangað mun félagið flytja á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert