Þetta var ekki boðlegt fyrir börn

Gömul ljósmynd af Kópavogshæli.Í skýrslunni er fjallað um vistun barna …
Gömul ljósmynd af Kópavogshæli.Í skýrslunni er fjallað um vistun barna á hælinu á árunum 1953 til 1993.

Vanræksla og ofbeldi. Á Kópavogshæli bjuggu fötluð börn sem áttu sér fáa málsvara og skilningsleysi á sértækum þörfum þeirra varð til þess að þau voru beitt ómannúðlegum refsingum. Skýrsla vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshæli árin 1952-1993, sem kynnt var í fyrradag, hefur vakið óhug margra og vakið margar spurningar um aðbúnað fatlaðra barna og þá starfsemi sem fram fór á Kópavogshæli.

„Þetta stofnanaumhverfi var ekki boðlegt fyrir neinn, hvað þá börn. Þetta var ekki heimili,“ segir Hrefna Haraldsdóttir þroskaþjálfi, ein þeirra sem rætt er við í skýrslunni, en hún starfaði á Kópavogshæli í nokkur ár í lok 6. áratugarins og byrjun þess 7.

„Ég byrjaði að vinna þar 17 ára gömul, árið 1959, fór síðan í gæslusystranámið og lauk því 1962,“ segir Hrefna, en það nám var undanfari þroskaþjálfanámsins og var kennt á Kópavogshæli.„Ég sá svo margt sem mér fannst ekki í lagi, t.d. að þarna voru börn inni á fullorðinsdeildum með fólki sem átti við ýmsa mjög alvarlega erfiðleika að stríða. En það sem mér fannst sárast var að foreldrum var haldið frá börnunum sínum, það mátti bara heimsækja þau í tvo tíma á sunnudögum og ef fólk vildi koma utan þess tíma þurfti að sækja um það sérstaklega. Það var ekki sjálfsagt að koma í heimsókn hvenær sem var.“

Hrefna segir að eitt atvik hafi setið í henni öðrum fremur. „Þarna var lítil stúlka sem var utan af landi. Ég skrifaði niður í nokkra daga hvernig henni leið og hvað hún var að gera, þetta var n.k. dagbók, og sendi foreldrum hennar það. Þau voru mjög glöð að fá þetta, en einhver klagaði mig fyrir stjórnendunum og ég var skömmuð. Mér var sagt að þetta væri vont fyrir barnið og foreldrana.“

Eftir að hafa lokið námi sem gæslusystir fór Hrefna til Danmerkur þar sem hún starfaði með fötluðum börnum og kynntist þar annarri aðferðafræði en hér var við lýði. „Þar umgengust foreldrar börnin miklu meira, þau voru bæði í skólum og leikskólum og fengu ýmiskonar markvissa örvun. Ég fór síðan aftur til Íslands, fór aftur að vinna á Kópavogshæli og vonaðist til að þessi þekking mín frá Danmörku myndi nýtast og verða til að breyta starfseminni. En það var enginn grundvöllur fyrir því og ég var oftar en einu sinni „tekin á teppið“, eins og við kölluðum það fyrir að ræða þessar hugmyndir. Ég hætti fljótlega að vinna þarna.“

Hrefna Haraldsdóttir.
Hrefna Haraldsdóttir.

Ómanneskjulegt umhverfi

Í skýrslunni kemur fram að börnin á Kópavogshæli hafi fengið litla sem enga formlega kennslu, en menntun þeirra sem dvöldust á slíkum stofnunum var á ábyrgð heilbrigðisyfirvalda en ekki fræðsluyfirvalda. Árið 1967 var þó ráðinn einn kennari á staðinn og átti hann að kenna öllum, bæði börnum og fullorðnum „í samræmi við getustig þeirra“, eins og segir í skýrslunni. Ekkert eftirlit var með þessari kennslu. Hrefna tekur undir þetta. „Börnin fengu enga skólagöngu og það var ekki einu sinni í umræðunni að breyta því, það gerðist ekki fyrr en nokkrum árum síðar.“ En hvað um markvissa örvun, var hún í boði fyrir börnin á Kópavogshæli? „Nei, og það var lítil örvun í umhverfinu þar. Maður sá varla leikföng þarna.“

Börnin á Kópavogshæli fóru ekki í skóla, þau áttu fá eða engin leikföng og fengu enga markvissa örvun – hvað gerðu þau allan daginn? „Það var fátt. Það var t.d. ekki talið gott að fara mikið með þau í ferðir út fyrir staðinn, það átti að vernda þau og umhverfið með því að láta þau vera sem mest heima við. Þarna var garður með hárri girðingu, þau fóru stundum út. Annars var bara beðið eftir matnum. En það þarf að hafa í huga að þarna var kannski ein manneskja, oft ung og ófaglærð, með umsjón með 14-15 manns bæði börnum og fullorðnum með ýmiss konar fötlun.“

Hrefna segir það vera sína upplifun að flest starfsfólkið sem hún starfaði með á Kópavogshæli hafi gert sitt besta, en verkefnið hafi einfaldlega verið stórt og flókið og mikið hafi verið lagt upp úr því að vera innan fjárhagsramma. Í því skyni var gjarnan undirmannað. „En ég verð samt að segja að þarna starfaði alls konar fólk og líklega var þetta ekki starf fyrir alla sem unnu þarna. Umhverfið var ómanneskjulegt og kallaði kannski fram einhverjar hliðar hjá fólki, eins og kemur fram í skýrslunni þar sem sagt er frá ljótum atvikum.“

Vistheimilanefnd.
Vistheimilanefnd. mbl.is/Golli

Hugsar oft um börnin

Í skýrslunni kemst vistheimilanefnd að þeirri niðurstöðu að heilbrigðisráðuneytið hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar með því að marka ekki skýra stefnu og setja lögbundnar reglugerðir sem skýrt hefðu getað hlutverk og starfsemi Kópavogshælis og aðbúnað barna á hverjum tíma. „Þá hafi ráðuneytið ekki uppfyllt það eftirlitshlutverk sitt að tryggja að starfsemi Kópavogshælis uppfyllti skilyrði laga og reglugerða sem um hælið giltu á hverjum tíma,“ segir í skýrslunni. Hrefna tekur undir þetta. „Það sem mér finnst umhugsunarvert er hversu lítið eftirlit var með starfseminni. Þetta var skilgreint sem sjúkrahús og samkvæmt lögum áttu landlæknir og Landspítali að hafa þetta eftirlit“

Hugsarðu stundum um aðstæður barnanna sem voru á Kópavogshæli þegar þú starfaðir þar? „Já. Ég hef oft hugsað um þetta tímabil. Ég vann í þessum málaflokki í um 50 ár og hef séð ýmislegt. En þetta hefur lifað með mér allan þennan tíma.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert