Ógnaði fjölskyldunni með hamri og hníf

.
. mbl.is/Kristinn

Lögreglan handtók ungan mann í annarlegu ástandi í Breiðholti á níunda tímanum í gærkvöldi en tilkynnt var um ofbeldi á heimilinu. Þegar lögregla kom á vettvang var hann með hamar í kjöltu sinni og hníf í hendi og hafði ógnað og hótað fjölskyldu sinni. Maðurinn gistir fangaklefa vegna rannsóknar málsins, að sögn lögreglu.

Skömmu fyrir miðnætti barst lögreglu síðan tilkynning um heimilisofbeldi í Hlíðahverfi. Þar var maður í annarlegu ástandi handtekinn af lögreglu og gistir hann einnig fangageymslur lögreglunnar.

Síðdegis í gær handtók lögreglan mann í Hafnarfirði sem er grunaður um framleiðslu fíkniefna. Lögreglan lagði hald á plöntur og áhöld á staðnum og er maðurinn vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Mjög ölvaður maður var handtekinn við veitingahús í Hafnarfirði í nótt og gistir hann fangageymslu þangað til ástand hans lagast að sögn lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert