Fjármálastefnan í takt við grunngildi og reglur

Fjárlagaráð kynnti álit sitt á fundi í Þjóðmenningarhúsinu síðdegis í …
Fjárlagaráð kynnti álit sitt á fundi í Þjóðmenningarhúsinu síðdegis í dag. mbl.is/Kristinn

Fjármálaráð kynnti í dag sitt fyrsta álit við fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar, en skipað var í ráðið í fyrra í samræmi við ný lög um opinber fjármál. Megin niðurstaða ráðsins er að fjármálastefnan eins og hún er lögð fram fylgi grunngildunum um stefnumörkun í opinberum fjármálum, en þau eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Þá uppfyllir hún einnig þremur tölulegum skilyrðum sem eru í lögunum.

Skilyrðin fela í sér – í fyrsta lagi - að heildarjöfnuður ríkis og sveitarfélaga yfir hvert fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Í öðru lagi að heildarskuldir hins opinbera, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en nemur 30% af vergri landsframleiðslu. Í þriðja lagi gera lögin kröfu um markvissa lækkun skulda á meðan skuldir eru yfir 30% viðmiðinu.

Á kynningarfundinum sagði Gunnar Haraldsson, hagfræðingur og formaður ráðsins, að það væri mat þeirra að stofnun ráðsins væri mjög jákvætt skref og til bóta þegar kæmi að því að hafa sjálfstætt eftirlit með fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisins.

Hvað er fjármálaráð, fjárlagastefna og fjármálaáætlun?

Áður en haldið er áfram er rétt að skýra nánar þessi þrjú meginhugtök sem eru nýtilkomin hér á landi. Fjárlagaráð er sjálfstætt þriggja manna ráð, auk þriggja varamanna, sem hefur það hlutverk að greina fjármálastefnu og fjármálaáætlun og athuga hvort þær uppfylli fyrrnefnd gildi og reglur.

Fjármálastefnan er svo sú stefna sem ný ríkisstjórn setur fram varðandi fjármál til allavega fimm ára í senn. Sú fjármálastefna sem ríkisstjórnin hefur nú lagt fram og var til skoðunar er fjármálastefna 2017-2022. Fjármálastefna er aðeins sett fram einu sinni á kjörtímabili og má líta á hana sem langtímastefnumótun í fjármálum þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við.

Fjármálaáætlunin er einnig langtímaáætlun, en hún byggir á fjármálastefnunni og er hún sett fram til fimm ára. Munurinn á henni og stefnunni er aftur á móti að fjármálaáætlunin er uppfærð á hverju ári miðað við stöðuna hverju sinni.

Staðfesta að stefnan uppfylli skilyrðin en leggja fram fjölda ábendinga

Gunnar sagði á fundinum að ráðið staðfesti að fjármálareglurnar sem lagðar eru til grundvallar séu uppfylltar, en að ráðið legði engu að síður til fjölda ábendinga til stjórnvalda varðandi atriði sem þyrfti að horfa til í komandi fjármálastefnum. Þannig þyrfti til dæmis að huga að því að fjármálastefnan væri byggð á hagspá Hagstofunnar sem kom út í nóvember, en stefnan hefði svo væntanlega áhrif út í efnahagslífið og því þyrfti að vera meiri hringrás innbyggð í kerfið, það er að stefnan tæki betur mið af þeim spám sem væru settar fram og spárnar þyrftu að taka mið af þeirri stefnu sem ætti að leggja fram.

Þá er í lögum um opinber fjármál tekið fram að lífeyrisskuldbindingar séu undanskildar skoðun fjármálaráðsins, en Gunnar sagði niðurstöðu ráðsins vera þá að mikilvægt væri að taka með þær skuldbindingar eins og allra annarra langtímaskuldbindinga.

Vikmörk réttari leið en föst tala

Þá er bent á að réttara væri að setja fram ákveðin bil eða vikmörk þegar kemur að tölulegum markmiðum í stefnunni. Í dag eru þau sett fram sem ein prósentutala af landsframleiðslu, en Gunnar segir að heppilegra sé að búa til sviðsmyndir og skoða hvaða áhrif það hefði að uppfylla ekki stefnuna. Hann tók þó fram að um væri að ræða mjög fína línu sem væri vandmeðfarin. Annars vegar mættu þau ekki vera of víð svo það yrði ekki lausung og þá mættu þau heldur ekki vera of þröng ef eitthvað kæmi upp á í efnahagslífinu, eða ef stefnan reyndist byggja á röngum forsendum. Sagði hann menn ekki mega vera fasta í stefnumiðun sem þeir gætu ekki náð.

Að lokum var bent á að horfa þyrfti til þess að leiðrétta tölur í stefnunni fyrir hagsveiflu. Annars væri hægt að vanmeta aðhaldsstigið í uppsveiflu og ofmeta það í niðursveiflu.

Fjármálaráðið hefur nú skilað áliti sínu við frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra, en það mun svo aftur taka til skoðunar frumvarp um fjármálaáætlun þegar hún kemur fram í apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert