„Þessi börn detta oft á milli kerfa“

Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar …
Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er nú rekin endurhæfingarstöð fyrir fatlaða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forstjóri Barnaverndarstofu segir að þjónusta við börn með þroskaraskanir sé á engan hátt fullnægjandi.

„Þetta er og hefur verið öllum kunnugt um sem að þessum málum hafa komið í langan tíma,“ segir Bragi Guðbrandsson og nefnir að nýlegar álitsgjafir og skýrslur um þennan vanda sýni stöðu mála svart á hvítu. „Þessi börn detta oft á milli kerfa og er vísað á milli stofnana því það er óljóst hver ber ábyrgð á að veita þjónustuna.“

Engin yfirsýn 

Hann bætir við að bæta þurfi eftirlitskerfið til muna. „Það er verið að vista börn utan heimils á Íslandi í dag á grundvelli laga um málefni fatlaðra, þrátt fyrir að engar slíkar heimildir séu að finna í lögunum,“ segir Bragi og nefnir að einu lögin sem með skýrum hætti heimila vistun barna utan heimilis séu barnaverndarlögin. Þetta felur í sér, að hans mati, að engin yfirsýn sé yfir það í dag hversu mörg fötluð börn séu í úrræðum utan heimila.

Spurður út í skýrslu vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshæli segir Bragi að hún sé döpur sannindi um hvernig samfélaginu hefur mistekist að annast sína minnstu bræður á sómasamlegan hátt.

Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu.

Vilja læra af ósköpunum

Hann telur mikilvægt að læra af því sem kemur fram í skýrslunni. „Við sem störfum á þessum vettvangi við að sinna börnum og þeim sem eiga undir högg að sækja erum á tánum yfir því. Okkur er annt um hvernig sagnfræðingar framtíðarinnar meta hvernig við erum að starfa og okkur er umhugað um að við lærum af þessum ósköpum úr fortíðinni.“

Þarf að taka lögin alvarlega

Í skýrslunni kemur fram að ýmsir eftirlitsaðilar hafi vanrækt skyldur sínar varðandi eftirlit með starfsemi Kópavogshælis, þar á meðal barnaverndarráð Íslands, sem hefur verið aflagt, stjórnarnefnd um málefni fatlaðra og landlæknir.

Að mati Braga þarf að taka lögin í landinu alvarlega. Alþingi geti ekki leyft sér að setja lög án þess að með fullnægjandi fjárveitingum sé hægt að tryggja að lögin séu framkvæmanleg.

„Ef við lítum á Kópavogshæli, og í rauninni á það sama við um gömlu barnaverndarstofanirnar, þá óskuðu forsvarmenn þessara stofnana ítrekað eftir auknum fjárveitingum til að geta staðið við framkvæmd ákvæða laga en töluðu fyrir daufum eyrum. Mér finnst við vera að gera svipað í dag. Það er verið að biðja um fjármagn til að fullnægja lagaákvæðum til að tryggja börnum þjónustu af þeim gæðum sem okkar þekking segir til um að sé best í dag,“ greinir hann frá.

Frá Kópavogshæli.
Frá Kópavogshæli.

Fólk sem vill láta gott af sér leiða

Bragi telur ekki sanngjarnt að draga til ábyrgðar, í tilfelli Kópavogshælis, einstaka forstöðumann eða starfsmenn.

„Heilt yfir er þetta gott fólk sem velur þessi störf af því að það vill láta gott af sér leiða. Það er gömul saga og ný að það geta reynst skemmd epli inni á milli en í heildina er þetta samfélagið sem ber ábyrgð á þessu,“ segir hann og nefnir stjórnmálamenn, stjórnendur, starfsfólk, fjölskyldur og samfélagið í heild. „Við stóðum okkur ekki betur í forsögunni en við getum breytt því og staðið okkur betur í framtíðinni.“

Þar sem kvennadeild Kópavogshælis var til húsa.
Þar sem kvennadeild Kópavogshælis var til húsa. mbl.is/Ómar Óskarsson

Búa við mikið óöryggi

Þegar Bragi talar um börn sem eru vistuð utan heimilis á hann við börn með fjölþættan vanda sem eru bæði fötluð og einnig með hegðunarvanda sem má rekja til fötlunarinnar. Þetta séu börn sem geti ekki nýtt sér meðferðarstofnanir.

„Þetta eru börn sem búa við mikið óöryggi sem foreldrar eiga í miklum erfiðleikum með að sinna vegna þess hversu mikil umönnunarþörfin er.“

Hann bendir á að málin hafi vandast eftir að málaflokkurinn var fluttur frá ríki yfir á sveitarfélög. „Mér finnst stundum eins og sveitarfélögin hafi verið skilin eftir með þessa miklu ábyrgð án þess að það væri tryggt á sama tíma að sveitarfélögin fengu bæði stuðning, aðhald og eftirlit til að hrinda þessum nýju ákvæðum í framkvæmd,“ segir hann og gagnrýnir að ekki hafi verið komið á fót stjórnsýslustofnun í því skyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert