„Versta tímabilið“ í sögu Polar Seafood

Grænlenski togarinn Polar Nanoq.
Grænlenski togarinn Polar Nanoq. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Henrik Leth, stjórnarformaður Polar Seafoods sem gerir út grænlenska togarann Polar Nanoq, segir dagana í kjölfar máls Birnu Brjánsdóttur hafa verið þá erfiðustu í sögu fyrirtækisins.

Í fréttatilkynningu til grænlenskra fjölmiðla segir Leth að það hafi hreyft við öllum starfsmönnum fyrirtækisins að samstarfmaður þeirra skuli liggja undir grun vegna hörmulegs dauðsfalls Birnu Brjánsdóttur.

„Síðustu vikur hafa fordæmalaust verið versta tímabilið í 32 ára sögu Polar Seafoods,“ skrifar Leth í fréttatilkynningunni.

„Þessi mannlegi harmleikur á Íslandi hefur hreyft við öllum í fyrirtækinu, óháð því hvort samstarfsmaður okkar beri einhverja ábyrgð á málinu eða ekki. Það skera dómstólar úr um, sem við berum 100% traust til.“

Tveir skipverjar Polar Nanoq voru í gæsluvarðhaldi í tvær vikur vegna málsins en annar þeirra er nú laus úr haldi og snúinn aftur til Grænlands. Hinn var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald til viðbótar.

Birna Brjánsdóttir hvarf 14. janúar en síðast hafði til hennar sést á gangi í miðborg Reykjavíkur nóttina áður. Hún fannst látin við Selvogsvita á Reykjanesi um það bil viku seinna eftir umfangsmikla leit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert