Ekki nauðsynlegt að vera syndur

Ekki er nauðsynlegt að vera syndur til að snorkla í 3° heitu vatninu í Silfru á Þingvöllum samkvæmt vefsíðum ferðaþjónustufyrirtækja sem bjóða upp á ferðir þar. Tæplega 50 þúsund manns snorkluðu eða köfuðu á svæðinu í fyrra en 8 fyrirtæki hafa selt ferðir þar.

Fram hefur komið harkaleg gagnrýni á starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu frá Ólafi Erni Haraldssyni, þjóðgarðsverði á Þingvöllum, í morgunútvarpinu á Rúv. Hann benti á að ferðamenn sem fari í snorkl-ferðir séu of oft illa syndir en einnig að of margir kafi eða snorkli í Silfru. Einar Sæmundsen fræðslustjóri segir í samtali við Rúv að þá hafi komið fyrir að liðið hafi yfir fólk á meðan það bíði þess að komast ofan í vatnið.

Þessi gagnrýni var sett fram í kjölfar banaslyss sem varð á svæðinu í gær þegar bandarískur ferðamaður lést eftir að hafa snorklað í Silfru. Á síðustu sjö árum hafa orðið níu alvarleg slys í Silfru og hafa fjögur þeirra verið banaslys. 

Mbl.is hefur í dag reynt að ná sambandi við forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækjanna dive.is og Arctic adventures til þess að spyrja út í öryggismál á svæðinu en án árangurs.

Á vef Arctic adventures og divesilfra.is má sjá að ekki eru gerðar strangar kröfur um að fólk sem fari í snorklferðir sé synt. Hjá divesilfra.is er einnig tekið fram að fólk sem sé ekki synt eigi það til að fát komi á það (e. panic) þegar í vatnið sé komið og því hafi það ekki getað notið upplifunarinnar.

Mbl.is var á Þingvöllum í dag þar sem fólk var að kafa og snorkla. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert