Ísland gæti staðið eitt fyrir utan

Styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hefur ekki verið meiri í …
Styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hefur ekki verið meiri í milljónir ára. AFP

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir niðurstöðu skýrslu Hagfræðistofnunnar um stöðu og framtíðarmál tengd losun gróðurhúsalofttegunda ekki koma á óvart. 

Frétt mbl.is: Ísland mun ekki uppfylla Parísarsáttmálann að óbreyttu

„Ástæðan fyrir þessu er að sú ríkisstjórn sem sat árin 2013 til 2016 gerði nákvæmlega ekki neitt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi,“ segir Árni í samtali við mbl.is.

Í skýrsl­unni kem­ur fram að sam­kvæmt svart­sýnni spán­um geti los­un gróður­húsaloft­teg­unda allt að tvö­fald­ast fram til árs­ins 2030, sé miðað við árið 1990 sem upp­hafs­ár. Í bjart­sýnni spán­um er aukn­ing­in 50% á sama tíma­bili.

Stenst ekki kröfurnar

„Þetta gæti leitt til þess að Íslandi uppfylli ekki þær kröfur sem Evrópusambandið gerir til aðildarríkja sinna og EES-ríkja um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Með öðrum orðum; Ísland stæði eitt og sér fyrir utan. Það yrði meiriháttar áfall,“ segir Árni og býðst til að skýra mál sitt aðeins betur:

„Evrópusambandið og EES-ríki hafa sameiginlegt markmið um að draga úr losun um 40% fyrir árið 2030. Ef það stefnir í aukningu hér á landi þá stenst Ísland ekki þær kröfur sem gerðar eru til Evrópusambandsríkja og Noregs og Íslands.

Skýrslugerðin tók allt of langan tíma

Hann segir að margt sé hægt að segja um gerð skýrslunnar, fátt gott. 

Hvernig gat það tekið tvö ár fyrir Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að hósta upp þessari skýrslu? Hvernig má það vera að umhverfisráðherra upplýsti ekki um að skýrslan var pöntuð nokkrum mánuðum fyrir Parísarráðstefnuna í desember 2015?

Hvernig stendur á því að hún birtist ekki fyrr en að loknum kosningum sl. haust? Hvers vegna í ósköpunum sat fyrirverandi ríkisstjórn á höndum sér allt síðasta kjörtímabil?“ spyr Árni og segir að tölurnar um aukningu losunar hafi legið fyrir um nokkurn tíma en ekkert hafi verið aðhafst í stjórnarráðinu.

„Um langt árabil hafa stjórnmálamenn á Íslandi lýst sjálfum sér sem heimsmeisturum í nýtingu hreinnar orku. Nú kemur í ljós að Ísland er langt á eftir öðrum ríkjum Evrópu í baráttunni við loftslagsbreytingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert