Styður ekki jafnlaunavottun

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að styðja fyrirhugað frumvarp Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, um jafnlaunavottun. Óli Björn Kárason, þingmaður flokksins, hefur einnig lýst yfir sömu afstöðu og Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra og þingmaður sama flokks, sagði í grein í árshátíðarblaði laganema við Háskóla Íslands í síðustu viku að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki tilefni til þess að fullyrða að kynbundinn launamun væri á finna á vinnumarkaðinum.

Frétt mbl.is: „Ágætur svo langt sem hann nær“

„Ég mun ekki styðja það,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is spurður hvort hann hafi í hyggju að styðja frumvarp Þorsteins. Brynjar sagði í samtali við mbl.is fyrir rúmum mánuði síðan þegar stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar lá fyrir að sáttmálinn væri „tiltölulega meinlaus“ en það sem hann væri ósáttastur við í honum væri að skylda ætti fyrirtæki til jafnlaunavottunar. Það væri íþyngjandi og kostnaðarsöm aðgerð sem ætti ekki heima í stjórnarsáttmála.

Byrnjar segist enn vera sömu skoðunar. „Ég held að þetta sé bara vanhugsað og menn séu að gefa sér rangar forsendur,“ segir hann. Ef fara eigi út í svona mikið inngrip í rekstur fyrirtækja sé lágmarkið að fyrir liggi án nokkurs vafa að raunverulegt vandamál sé fyrir hendi sem réttlæti það. „Það er auðvitað meginforsendan ef ætlunin er að fara út í svona inngrip að vandamál sem ætlunin er að leysa sé örugglega til staðar. Það er alveg frumforsendan.“

Frétt mbl.is: Dregur kynbundinn launamun í efa

Brynjar segir erfitt að sætta sig við slík afskipti ríkisvaldsins af frjálsum samningum. „Menn verða að athuga það að þetta er markaður, vinnumarkaður. Menn eru í samkeppni þar. Það þýðir ekkert að fara að láta ríkisvaldið skipta sér af þessu.“ Það væri svipað og að taka aftur upp verðlagseftirlit af hálfu hins opinbera segir hann. Laun væru ekki annað en verðlagning fólks á vinnu þess. „Þetta er bara einhver vitleysa. Ég vona að menn endurskoði þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert