Bera ábyrgð á stjórnarfrumvörpum

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagsmálaráðherra hefur ekki áhyggjur af því að fyrirhugað frumvarp hans um jafnlaunavottun nái ekki fram að ganga á Alþingi þrátt fyrir að að minnsta kosti tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðji það ekki. Frumvarpið eigi eftir að líta dagsins ljós og þingflokkur sjálfstæðismanna beri ábyrgð á stuðningi við stjórnarfrumvörp. Þá njóti málið víðtækars stuðnings á þingi. Stjórnarflokkarnir hafa eins þingmanns meirihluta.

„Ég er fyrir það fyrsta mjög ánægður með að þetta hefur beint sjónum fólks að því vandamáli sem kynbundinn launamunur er og aukið umræðuna um það. Það er alveg ljóst að það eru ekkert allir sammála. Einhverjir telja muninn ofmetinn og jafnvel ekki vera fyrir hendi eða að vandamálið muni leysast af sjálfu sér. Þeir eiga auðvitað fullan rétt á skoðunum sínum. Ég er hins vegar ekki sammála þeim,“ segir Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra.

Frétt mbl.is: Styður ekki jafnlaunavottun

Fjöldi vandaðra rannsókna hafa verið unnar að sögn Þorsteins sem sýni að launamunur kynjanna sé fyrir hendi og sé ennfremur mjög mikill. Þar hafi verið teknar inn í myndina allar þær breytur sem geti mögulega skýrt launamuninn og teljast málefnalegar. „Þrátt fyrir það er munurinn að mælast mjög hár. Svona á bilinu 7-10%. Í öllum rannsóknum hallar á konur og því tel ég algerlega augljóst að þessi munur sé fyrir hendi sem er ólíðandi til lengdar.“

Brynjar og Óli Björn kynni sér málið betur

Víðtækur stuðningur sé í samfélaginu og inni á Alþingi við það að taka á vandamálinu. „Ég hvet bara þá þingmenn sem starfa innan stjórnarflokkanna að kynna sér málið betur og væntanlegt frumvarp þegar það kemur fram. Það er bara í takt við vönduð vinnubrögð að móta skoðanir sínar á grundvelli málefnanna þegar þau eru komin fram fullmótuð en ekki á getgátum um það hvernig þau munu mögulega líta út,“ segir hann ennfremur.

Spurður hvort hann telji ekki þörf á frekari rannsóknum í þessum efnum segist Þorsteinn ekki telja svo vera. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hefur ásamt Óla Birni Kárasyni samflokksmanni sínum lýst því yfir að hann ætli ekki að styðja frumvarp um jafnlaunavottun, hefur sagt að ef fara eigi út í jafn mikið inngrip í rekstur fyrirtækja og frjálsa samninga sé lágmarkið að hafið sé yfir nokkurn vafa að vandamálið sé til staðar.

„Það liggur fyrir fjöldi rannsókna í þessum efnum. Þar á meðal tvær viðamiklar rannsóknir Hagstofunnar og aðila vinnumarkaðarins þar sem ekki er byggt á úrtakskönnunum heldur á öllu því launamengi sem Hagstofan hefur undir í útreikningum sínum á launavísitölum. Þar eiga ekki við þær skekkjur sem vísað hefur verið til að gætu verið í tiltölulega fámennum úrtakskönnunum. Þetta eru mjög ítarlegar rannsóknir,“ segir félagsmálaráðherra.

Verði áfram í farabroddi í jafnréttismálum

„Þannig að ég held að það sé yfir allan vafa hafið að þetta hafi verið rannsakað ítarlega og ítarlega í gegnum tíðina og niðurstaðan hefur alltaf verið sú sama,“ segir Þorsteinn. Hins vegar verði að sjálfsögðu horft til þess að jafnlaunavottun verði eins lítið íþyngjandi fyrir fyrirtæki og stofnanir og kostur sé án þess að fórna markmiðinu um að vinna verulega á kynbundnum launamun. Íslands hafi verið í fararbroddi í jafnréttismálum og ætlunin sé að vera það áfram.

Það sem helst hafi vantað upp á í þeim efnum hafi verið annars vegar kynbundinn launamunur og hins vegar kynbundið ofbeldi. Unnið væri að frumvörpum sem tækju á þessum tveimur vandamálum í velferðarráðuneytinu. „Stór ástæða fyrir hagsæld þjóðarinnar í gegnum árin hefur verið þessi óvenju mikla þátttaka kvenna á vinnumarkaði. Þá skiptir líka miklu máli að kynin búi við jafna stöðu á vinnumarkaði.“ Þar eigi Ísland enn langt í land.

Spurður hvort hann hefði áhyggjur af því að frumvarpið um jafnlaunavottun ætti ekki eftir að verða afgreitt á Alþingi segir Þorsteinn svo ekki vera. „Ég hef engar áhyggjur af því. Það er skýrt kveðið á um þetta í stjórnarsáttmála. Auðvitað ber þá þingflokkur sjálfstæðismanna ábyrgð á stuðningi sínum við stjórnarfrumvörp. Það verða menn bara að ræða heimafyrir í þeim efnum. En það er líka ljóst að málið nýtur stuðnings á þingi langt út fyrir stjórnarflokkana. Við munum að sjálfsögðu halda ótrauð áfram með undirbúning málsins og leggja það fram á þingi í vor.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert