Umhverfismálin ekki bara kremið á kökuna

Aukin flugumferð til og frá Íslandi er áhyggjuefni, segir Stefán …
Aukin flugumferð til og frá Íslandi er áhyggjuefni, segir Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur sem segir Íslendinga gjarna á að tala bara um það sem þeir geri vel í umhverfismálum en horfa framhjá því sem miður er. AFP

Íslendingar eru sinnulausir í umhverfismálum og gera sjálfkrafa ráð fyrir að hér sé allt hreint og gott, en gera lítið til að hafa það þannig. Þetta segir Stefán Gíslason sjálfstætt starfandi umhverfisstjórnunarfræðingur sem rekur ráðgjafafyrirtækið Environice. Hann segir stjórnvöld og landsmenn enn líta á umhverfismálin sem eitthvað hliðarverkefni, sem hægt sé að sinna í hjáverkum, í stað þess vera sá kjarni sem að þau þurfi að vera.

„Menn eru í einhverju móki, en miðað við mannfjölda þá stöndum við mjög illa,“ segir Stefán.

Niður­stöður skýrslu Hag­fræðistofn­unn­ar um stöðu og framtíðar­mál tengd los­un gróður­húsaloft­teg­unda, sem kynntar voru í gær komu Stefáni ekki á óvart.„Þetta er bara það sem menn vissu,“ segir hann. „Menn vissu að við losum hér meira á mann en gert er víða annars staðar. Menn vissu líka að það væri verið að reisa hvert stóriðjuverið á fætur öðru.“

Þó stóriðja og aukning flugumferðar til og frá landinu heyri undir EPS, sameiginlegt viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir, feli það ekki í sér að það eigi að horfa framhjá þessum þáttum.

Fölnar þegar heildarmyndin er skoðuð

„Þegar heildarmyndin er skoðuð, þá fölnar svolítið þessi fallega mynd af landinu sem er með svo mikið af endurnýjanlegri orku,“ segir hann.

Íslendingar séu svo heppnir að vera með endurnýjanlega orku þegar kemur að rafmagni og hita, en það hafi einnig gert þá sinnulausa. „Það hefur viðgengist sá hugsunarháttur að fyrst að við erum búin að græða þetta, þá er þetta bara komið og við þurfum ekki að leggja neitt á okkur.“

Hann nefnir sem dæmi að endalaust sé rætt um það stóra framfaraskref sem var tekið þegar að Hitaveita Reykjavíkur var stofnuð og allt höfuðborgarsvæðið var hitað upp með heitu vatni. Lítið hafi hins vegar gerst síðan þá. „Menn ætla bara endalaust að segja umheiminum frá því hvað þetta hafi verið frábært - sem að það var - en það er liðin meira en hálf öld síðan.“

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur segir of marga líta á umhverfismálin sem …
Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur segir of marga líta á umhverfismálin sem hliðarverkefni í stað þess að vera sá kjarni sem þau þurfi að vera. mbl.is/ Ómar Óskarsson

Íslendingar þurfi að hætta að tala endalaust bara um það sem þeir standi sig vel í, á meðan að þeir geri lítið til að bæta þau svið sem að þeir standi sig ekki. „Það þurfa allir að taka sig á á öllum sviðum og ekki bara tala um það sem þeir eru góðir í að gera.

Það er þó ekki bara að við þurfum að hrista af okkur slenið og gera eitthvað af því að við neyðumst til þess, heldur líka af því að það eru tækifæri í því.“

Nota mikið jarðefnaeldsneyti á hvern landsmann

Íslendingar nota  mikið af jarðefnaeldsneyti á hvern landsmann að sögn Stefáns. „Kolanotkun í stóriðju hefur verið í umræðunni undanfarið og svo erum við með mjög stórann bílaflota miðað við íbúafjölda.“ Lítið hefur hins vegar verið gert til að auka rafvæðingu samgangna miðað við það sem hefði verið hægt að gera.

Þannig eru til að mynda þeir styrkir sem Orkusjóður úthlutar til að koma upp hleðslustöðvum fyrir rafbíla, lítil upphæð í samanburði við það fjármagn sem fer í að niðurgreiða eldsneyti til flutninga. „Þetta er viðbót, í stað þess að vera aðalmálið og við höfum tekið mjög lítil skref þar sem að við hefðum geta tekið stór skref.“

Líkt og fram kemur í skýrslunni þá felast mikil tækifæri í rafvæðingu flutninga og samgangna á landi og sjó. Eins segir Stefán ónýtt tækifæri felast í aukinni metannotkun. „Rafvæðing hafna er annað mál sem töluvert hefur verið rætt um, en lítið orðið um framkvæmdir,“ segir Stefán.

Skúffuskýrslan um græna hagkerfið

Lítill vilji hefur verið í verki hjá stjórnvöldum til breytinga til þessa og nefnir Stefán sem dæmi að í mars 2012 hafi verið samþykkt þingsályktun um veggöngu græns hagkerfis. „Þar eru 50 tillögur um aðgerðir sem allar eru í þá vegu að gera hagkerfið grænna. Þessi skýrsla hefur í öllum aðalatriðum legið niðri í skúffu. Þessi þingsályktun á fimm ára afmæli núna í mars og það er búið að setja í gang tvö eða þrjú verkefni af þessum fimmtíu.“

Núverandi ríkisstjórn tali þó um að huga að málum í anda græns hagkerfis í stefnuyfirlýsingu sinni, sem sé jákvætt. Stjórnvöld sýni því a.m.k. í orði meiri vilja til að vinna eitthvað í málunum. „Svo kemur í ljós hvort að aðgerðir fylgi og hvort að þær verði þá áfram bara krem á kökuna eða hvort að þær verði aðalrétturinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert