Verður væntanlega yfirheyrður á morgun

Lögregla gerir ráð fyrir að yfirheyra sakborninginn í máli Birnu …
Lögregla gerir ráð fyrir að yfirheyra sakborninginn í máli Birnu á morgun. mbl.is/Golli

Lögregla gerir ráð fyrir að yfirheyra aftur á morgun manninn sem grunaður er um að vera valdur að láti Birnu Brjánsdóttur, sem fannst látin í fjörunni við Selvogsvita 22. janúar.

„Ég reikna með að við yfirheyrum hann á morgun,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með rannsóknina á máli Birnu. Maðurinn var síðast yfirheyrður á föstudaginn í síðustu viku og rennur núverandi gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum út næsta fimmtudag, en þá verður maðurinn búinn að vera í einangrun í fjórar vikur.  

Ekki liggur enn fyrir játning en Grímur tjáir sig ekki að öðru leyti um það hvort maðurinn ræði við lögreglu og sé samstarfsfús við lögreglu.

Grímur segir enn ekki hafa verið ákveðið hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald. „Við ákveðum það annaðhvort seinni partinn á morgun eða á fimmtudagsmorguninn,“ segir hann.

Ekki liggja enn fyrir niðurstöður úr þeim sýnum sem lögregla sendi út til rannsóknar, en mbl.is hafði eftir Grími í gær að hann vonaðist til að þær skiluðu sér á næstu dögum. Hann segir lögreglu hafa óskað eftir flýtimeðferð, en rúmar þrjár vikur eru nú frá því að töluvert magn sýna og muna var sent utan til greiningar og sýnatöku. „Það er þó alltaf spurning hversu mikill forgangurinn er,“ segir Grímur og bætir við að vinnsla sýnanna sé enn innan eðlilegs tímaramma.

Hann segir rannsóknina líka ganga ágætlega, þó að engar nýjar vísbendingar hafi borist. „Henni miðar vel og mun væntanlega ljúka á þannig tíma að við getum skilað til héraðssaksóknara." Búast megi þó við því að hún taki nokkrar vikur til viðbótar, en lögregla vinnur nú að því að safna gögnum sem síðan verða send héraðssaksóknara.

Lögregla og ákæruvald hafa 12 vikur frá handtöku til að gefa út ákæru, eigi viðkomandi að sitja í gæsluvarðhaldi fram að dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert