Einar Georg yrkir daglega

Ásgeir Trausti, Einar Georg og Þorsteinn, þegar önnur ljóðabók Einars …
Ásgeir Trausti, Einar Georg og Þorsteinn, þegar önnur ljóðabók Einars Georgs kom út. mbl.is/Golli

Afterglow, önnur plata Ásgeirs Trausta, kemur út 5. maí, en hún var kynnt með laginu „Unbound“ á bandarísku útvarpsstöðinni National Public Radio um helgina. Einar Georg Einarsson, faðir tónlistarmannsins, á texta á plötunni rétt eins og á þeirri fyrri og sama á við um bróður hans Þorstein, eða Steina í Hjálmum, en hann þýddi einnig textana á ensku.

Feðgarnir hafa unnið saman frá því strákarnir voru litlir. „Við byrjuðum snemma að vinna saman lög og texta, Ásgeir samdi lög og bað mig um að gera texta við þau, og ég átti miklu fleiri texta á fyrri plötunni,“ rifjar Einar Georg upp, en Dýrð í dauðaþögn (In the Silence) kom út 2012. „Steini hefur verið meira fyrir það að nota ljóð sem ég hef átt tilbúin.“

Einar Georg byrjaði að semja ljóð þegar hann var barn og hefur haldið því áfram, hvort sem hann hefur unnið við múrverk, kennslu, skólastjórn eða hvað sem er. „Mér hefur alltaf þótt létt að semja ljóð. Þegar ég var krakki var ég ætíð í sveit í Laxárdal í Þingeyjarsýslu á sumrin. Þar var maður sem var mjög flinkur við þetta og við ortum allan daginn.“

Ásgeir Trausti á tónleikum í Reykjavík.
Ásgeir Trausti á tónleikum í Reykjavík. mbl.is/Rósa Braga

Tónlistin í hávegum höfð

Tónlistin hefur alla tíð svifið yfir vötnum á heimili Einars Georgs. Hann á sex börn, sem öll spila á hljóðfæri, og sjálfur er hann liðtækur á harmoniku og hljómborð. „Ég er svo sem enginn snillingur, spila bara fyrir mig sjálfan, en ég man varla eftir Ásgeiri og Steina öðruvísi en að spila á gítar,“ segir Einar Georg og bætir við að sonunum þyki ekki mikið til hljóðfæraleiks hans koma. Hins vegar segir hann að framganga þeirra á tónlistarsviðinu hafi ekki komið sér á óvart. „Það kemur mér ekki á óvart hvað Ásgeir hefur náð langt en hann er ekki fyrir það að trana sér fram, er feiminn að eðlisfari og ekkert fyrir það að vekja á sér athygli.“ Sjálfur hefur Einar Georg samið sönglög fyrir kóra en gerir lítið úr sínum hlut á plötunum. „Þegar ég sem texta hugsa ég aldrei um hvort einhverjum líki þeir eða ekki og sama held ég að eigi við um Ásgeir. Ég held að hann hafi aldrei samið lag með vinsældir í huga.“

Eftir Einar Georg liggja tvær ljóðabækur, Þá mun vorið vaxa og Hverafuglar, en Ásgeir Trausti myndskreytti þá síðarnefndu. „Það er alltaf eitthvað í smíðum án þess að ég sé endilega að hugsa um að gefa út bók,“ segir ljóðskáldið, spurður um frekari útgáfu. „Ég yrki eitthvað á hverjum degi og geri það sem ég get til þess að hjálpa strákunum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert