Rannsóknarnefnd ferðaslysa tímabær

Öryggi ferðamanna hér á landi hefur verið í sviðsljósinu undanfarin misseri. Reglulega berast fréttir af ferðamönnum sem hafa lent hættu eða misalvarlegum slysum. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir tímbært að lögfesta hlutverk rannsóknarnefndar ferðaslysa til að ná betri tökum á öryggismálum í ferðaþjónustu.

Hugmyndin er ekki ný af nálinni og var m.a. rædd í stefnumótunarvinnu sem Ferðamálastofa og Landsbjörg stóðu að fyrir rúmum fjórum árum, líkt og kom fram í fjölmiðlum. Á þeim tíma sem liðinn er síðan þá hefur eitt og annað verið gert í málaflokknum og ýmsir vinsælir ferðamannastaðir hafa fengið fjármagn til að bæta öryggi á vettvangi.

Hins vegar hefur lítið breyst hvað löggjöf varðar sem hefur bein áhrif á öryggismál á ferðamannastöðum og hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Fyrirtæki sem eru með starfsemi úti á hafi eða í köfun þurfa að leggja fram öryggisáætlanir en slík krafa er ekki jafnalgeng hjá þeim sem starfi uppi á landi.

Ólöf Ýrr nefnir þessi tvö atriði sem gætu verið til bóta í öryggismálum í ferðaþjónustu. „Regluverkið og yfirsýnin um það hafa ekki haldið í við þróun í ferðaþjónustu,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir er nýr ráðherra ferðamála, iðnaðar og ný­sköp­un­ar í nýrri rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­son­ar og hefur hún boðað vinnu í mótun á framtíðarsýn í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert