Yfirheyrðu manninn í morgun

Grímur Grímsson yfirögregluþjónn segir yfirheyrslum yfir manninum sem grunaður er …
Grímur Grímsson yfirögregluþjónn segir yfirheyrslum yfir manninum sem grunaður er um að vera valdur að láti Birnu vera lokið í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lögregla yfirheyrði í morgun manninn, sem grunaður er um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur, sem fannst látin í fjörunni við Selvogsvita 22. janúar. Þetta staðfesti Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem hefur yfirumsjón með rannsókninni, í samtali við mbl.is.

Hann segir yfirheyrslum þar með lokið í dag og enginn játning liggi enn fyrir, en vill að öðru leyti ekki tjá sig það sem fram komi við yfirheyrslur.

Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út síðdegis á morgun. Maðurinn hefur þá setið í einangrun í fjórar vikur og má í ljósi alvarleika málsins telja líklegt að farið verði fram  á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum.

Grím­ur seg­ir þó enn ekki hafa verið ákveðið hvort að það verði gert, en að slík ákvörðun verði tekin annaðhvort síðdegis í dag eða á fimmtu­dags­morg­un­.

Þá hafa niðurstöður úr rannsóknum á þeim sýnum sem voru send erlendis til greiningar enn ekki borist, en mbl.is hafði eft­ir Grími í mánudag að hann vonaðist til þess að þær skiluðu sér á næstu dög­um. Tæknideild lögreglu sjái um þau samskipti og samkvæmt þeirra upplýsingar séu þær rúmu þrjár vik­ur sem nú eru frá því að sýnin voru send utan innan eðlilegs vinnslutíma.

Lög­regla og ákæru­vald hafa 12 vik­ur frá hand­töku til að gefa út ákæru, eigi viðkom­andi að sitja í gæslu­v­arðhaldi fram að dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert