Bjarni verður í forsvari HeForShe

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands, verður einn tíu þjóðarleiðtoga í forsvari fyrir HeForShe, kynningarátak UN Women, þar sem karlmenn um allan heim eru hvattir til að taka þátt í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkisstjórninni, en tveir forverar Bjarna í embættinu, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, voru einnig í forsvari fyrir átakið.

Segir einnig í tilkynningunni að málið verði á dagskrá ríkisstjórnarinnar á fundi hennar á morgun.

Samdægurs fer fram viðburður vegna átaks UN Women á Íslandi gegn kynbundnu ofbeldi, „Milljarður rís“, en hann er haldinn í Hörpu. Í ár munu þátttakendur í viðburðinum heiðra minningu Birnu Brjánsdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert